Verða að upplýsa lántakendur betur

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar

Veitendur verðtryggðra lána munu ekki geta sýnt fólki útreikninga byggða á 0% verðbólgu, heldur verður að upplýsa um kostnaðinn með verðbótum, verði tillaga efnahags- og viðskipanefndar um breytingar á frumvarpi til neytendalánalaga samþykkt. Frumvarpið var afgreitt úr nefndinni til annarrar umræðu í dag. 

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir að samkvæmt tillögum nefndarinnar verði gerðar kröfur á fjármálafyrirtæki að upplýsa lántakendur betur um kostnað við lántöku að meðtöldum kostnaði vegna verðtryggingar.

Dr. Maria Elvira Mendez-Pineto, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, var gestur á fundi nefndarinnar í dag til að ræða álit sérfræðings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í neytendalöggjöf um að framkvæmd verðtryggingarinnar, en líkt og mbl.is hefur sagt frá má lesa úr svörum sérfræðingsins, við fyrirspurn Elviru, að ólöglegt sé að veita verðtryggð lán án þess að taka tillit til verðbólgu í árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildar lántökukostnaði.

Helgi Hjörvar segir að tillögur nefndarinnar séu á svipuðum slóðum og sú gagnrýni sem fram hefur komið. Milli annarrar og þriðju umræðu hyggst nefndin fjalla nánar um með hvaða hætti sé rétt að lánveitendur upplýsi neytendur um það þegar kostnaður vegna breytilegra vaxta eða verðbóta hækkar frá því sem hann var í upphafi lántöku vegna aukinnar verðbólgu eða hækkunar á breytilegum vöxtum.

„Meginatriðið er að neytandinn sé upplýstur um allan kostnað bæði þegar hann tekur ákvörðun um að taka lánið og eins ef að kostnaður eykst frá því sem þá er.“

Fram kom á fundinum í dag að álit sérfræðings framkvæmdastjórnar ESB um verðtrygginguna sé ekki bindandi en að það gefi ákveðnar vísbendingar. Aðspurður hvort þetta kunni að hafa afturvirk áhrif segir Helgi Hjörvar að í starfi nefndarinnar sé aðeins horft á hvernig byggja megi á álitinu til framtíðar.

Tillögur nefndarinnar feli ekki í sér neina afstöðu til lögmætis þeirrar framkvæmdar sem verið hefur á verðtryggingu til þessa. „Það er mál sem verður bara að ráðast fyrir dómstólum og eðlilegt að neytendur geri sínar ýtrustu kröfur þar og láti á það reyna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert