Fjöldi barna tíu ára og yngri hefur aukist um 62% í Reykhólahreppi frá 1. janúar 2005 samkvæmt tölum frá Hagstofunni en þá voru íbúar sveitarfélagsins 114 og þar af börn tíu ára og yngri 21 eða 18,4% íbúafjöldans. Íbúum í heild hefur á sama tíma hins vegar fjölgað um 16,7%.
Þetta kemur fram á vefsíðu Reykhólahrepps en þar segir einnig að fjöldi barna sé áberandi hátt í hreppnum hlutfallslega miðað við önnur sveitarfélög. Þannig hafi 34 börn tíu ára og yngri átt heima í hreppnum 1. janúar síðastliðinn af heildaríbúafjölda upp á 133 manns eða 25,6%.
„Hlutfallið á landinu öllu er 15,3% og í Reykjavík 14,6%. Ef tölur frá öllum byggðarkjörnum á Vestfjarðakjálkanum og Búðardal eru skoðaðar kemur í ljós, að hlutfall barna tíu ára og yngri er langhæst á Reykhólum,“ segir á vefsíðunni.