„Ég hafði ekki tök á að veita formlegt samþykki þó legið hafi fyrir að við værum öll sammála innan nefndarinnar,“ segir Sunna Gunnars Marteinsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefnd um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga.
Eins og mbl.is fjallaði um í morgun hefur nefndin lagt til að Alþingi skyldi Ríkisútvarpið til þess að senda út kynningarefni framboða þeim að kostnaðarlausu í aðdraganda þingkosninganna í vor. RÚV leggi þeim að auki til tæki og tæknivinnu sem verði framboðunum ekki þung fjárhagsleg byrði.
Tillagan var undirrituð af fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna í nefndinni nema Framsóknarflokksins en Sunna segir að það hafi ekki verið vegna ágreinings um tillöguna í nefndinni heldur einungis vegna skorts á tíma til þess að veita formlegt samþykki.