Landspítalinn aflífaður á kvalafullan hátt

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Árni Sæberg

Læknar Landspítalans skora á stjórnvöld að hætta við áform sín um að taka af lífi Landspítala og heilbrigðiskerfi Íslands á hægan og kvalafullan hátt. Þetta segir í ályktun læknaráðs sjúkrahússins. Læknir á Landspítalanum segir mælinn fullan og að heilbrigðiskerfið sé komið fram af bjargbrúninni.

Haldinn var almennur læknaráðsfundur lækna sjúkrahússins á föstudaginn þar sem staða heilbrigðiskerfisins var rædd. Einn þeirra sem sat fundinn er Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir.

„Ég held að það sé ekki ofsagt að segja að mælirinn sé orðinn fullur hvað lýtur að niðurskurðinum á Landspítalanum og í heilbrigðisþjónustunni allri. Mönnum var tíðrætt um tækjabúnað, launamál og álag, en það hefur verið óvenjumikið um innlagnir að undanförnu. Í slíku ástandi er ekkert þanþol, það er ekki aðalsmerki góðrar heilbrigðisþjónustu að þanþolið skuli vera svona lítið,“ segir Sigurður.

„Svo ræddum við gangainnlagnirnar, sem eru ein birtingarmynd vandans. Við erum að láta bráðveikt fólk liggja á göngum í björtum neonljósum, þar sem gestir og starfsfólk eiga leið um. Það er auðvitað alveg skelfilegt að þurfa gera þetta við veikt fólk.“

<h3>Ræða þarf forgangsröðun</h3><div>Sigurður segir að það hafi verið álit fundarmanna að niðurskurðurinn hefði gengið of langt. „Það er ekki aðalsmerki þjóðar sem kennir sig við velferð að ganga svona fram í heilbrigðismálum og það sama má í rauninni segja um menntamál. Við erum ekki ekki komin fram að þessari títtnefndu bjargbrún, heldur fram af henni.“</div><div>Að sögn Sigurðar var forgangsröðun opinbers fjármagns rædd á fundinum. „Bönkum hefur verið bjargað fyrir tugmilljarða, við byggjum jarðgöng og svo er það stjórnarskrármálið. Allt eru þetta brýn verkefni, en við erum í þeirri stöðu að við verðum að forgangsraða. Umræða um hvað skiptir mestu máli þyrfti að fara fram í samfélaginu.“</div><h3>Getum ekki verið án neinnar af þessum stéttum</h3><div>Sigurður segir áhyggjur lækna uppsafnaðar og nú sé mælirinn fullur. „Við höfum áhyggjur af uppsögnum starfsfólks og svo virðist sem við höfum bara séð byrjunina á því öllu saman. Fleiri stéttir virðast ætla að fylgja á eftir hjúkrunarfræðingunum; geislafræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar og læknar. Hvað gerist þá? Við getum ekki verið án neinnar af þessum stéttum.“</div><div>„Þetta getur ekki gengið svona til langframa. Einhvern tímann verðum við að segja stopp. Núna þarf að fara að bæta í þannig að starfsemin nái sér aftur á strik, annars töpum við of miklu.“</div>
Læknar á Landspítalanum hafa miklar áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins.
Læknar á Landspítalanum hafa miklar áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert