Læknar Landspítalans skora á stjórnvöld að hætta við áform sín um að taka af lífi Landspítala og heilbrigðiskerfi Íslands á hægan og kvalafullan hátt. Þetta segir í ályktun læknaráðs sjúkrahússins. Læknir á Landspítalanum segir mælinn fullan og að heilbrigðiskerfið sé komið fram af bjargbrúninni.
Haldinn var almennur læknaráðsfundur lækna sjúkrahússins á föstudaginn þar sem staða heilbrigðiskerfisins var rædd. Einn þeirra sem sat fundinn er Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir.
„Ég held að það sé ekki ofsagt að segja að mælirinn sé orðinn fullur hvað lýtur að niðurskurðinum á Landspítalanum og í heilbrigðisþjónustunni allri. Mönnum var tíðrætt um tækjabúnað, launamál og álag, en það hefur verið óvenjumikið um innlagnir að undanförnu. Í slíku ástandi er ekkert þanþol, það er ekki aðalsmerki góðrar heilbrigðisþjónustu að þanþolið skuli vera svona lítið,“ segir Sigurður.
„Svo ræddum við gangainnlagnirnar, sem eru ein birtingarmynd vandans. Við erum að láta bráðveikt fólk liggja á göngum í björtum neonljósum, þar sem gestir og starfsfólk eiga leið um. Það er auðvitað alveg skelfilegt að þurfa gera þetta við veikt fólk.“