Ófært á fund um samgöngur

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/GSH

„Hér sitjum við  heimamenn mættir á fund um samgöngur á sjó og bíðum eftir fólki úr Reykjavík. Við höfum ekki getað fundað því það er ófært með flugi,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í morgun.

Fundurinn um samgöngur á sjó gat því ekki hafist því flug lá niðri vegna veðurs. Von var á fulltrúum frá Siglingastofnun, Vegagerðinni, innanríkisráðuneytinu, Eimskip og fleirum til fundarins. En hvers vegna tóku gestirnir ekki Herjólf?

„Þá hefðu þeir ekki verið komnir fyrr en klukkan þrjú í dag,“ sagði Elliði. „Þetta sýnir vel hve brýnt það er að leysa samgönguvanda okkar Eyjamanna.“

Fundurinn var svo blásinn af um hádegið því enn var ófært. Elliði sagði að 18 manns hefðu ætlað að vera á fundinum og undirbúningur hans hefði staðið dögum saman. Kostnaðurinn sé því orðinn mikill við fund sem ekki var haldinn. 

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert