„Ég hef verið spurður að því hvernig hafi verið hinum megin en svarað því þannig, að ég tók loforð um að segja ekki neitt um það. Ég læt þar við sitja,“ segir Sigurður Samúelsson sem lenti í hjartastoppi í vinnslusal Norðlenska á Húsavík í október í fyrra.
Sigurður segist í viðtali sem birt er á vefsvæði Norðlenska tvisvar hafa farið „yfir“ en þegar hann fór í hjartastopp missti hann meðvitund og féll í gólfið. "Þetta gerðist allt mjög hratt og ég var kominn í hjartaþræðingu innan við tveimur tímum seinna. Starfsfólkið á hjartagáttinni fyrir sunnan skildi ekki að þetta væri hægt á svona stuttum tíma!"
Í ljós kom að vinstri slagæð við hjarta var nánast lokuð. Hann þurfti að gangast undir tvær aðgerðir en settur var í hann bæði bjarg- og gangráð. Þær gengu að óskum sem og endurhæfingin. „Ég beið eftir því að mega byrja vinna og gat mætt aftur til starfa í byrjun desember, var þá hálfan daginn en fór að vinna allan daginn aftur eftir að ég kom vel út úr þrekprófi í byrjun janúar.“