Í janúar síðastliðnum var viðbragðsáætlun Landspítans virkjuð í tvígangog sjúkrahúsið sett á óvissustig. Með því afhjúpaðist krísa sem legið hefur í leyni um skeið og beðið eftir að skjóta upp kollinum. Þetta segir segir Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum, LSH.
Hann gagnrýnir málflutning stjórnenda spítalans og segir aldraða hafa verið gerða að blórabögglum í því ástandi sem skapaðist.„Í málflutningi nokkurra forsvarsmanna LSH í fjölmiðlum var látið að því liggja að vandi LSH væri að 100 eldri manneskjur stífluðu sjúkrahúsið,” segir Pálmi. „ Með því er verið að gera gamalt fólk að blóraböggli eða hengja bakara fyrir smið þegar hið raunverulega vandamál er niðurskurður um liðlega 20% á undanförnum árum. Ein birtingarmynd hans er að rúmanýting á góðum dögum á lyflækningadeild er 95-115%, það er að segja: þegar fáir bíða eftir hjúkrunarheimili og farsóttir og stórslys eru fjarri. Það var of lengi látið í veðri vaka að allt væri öruggt og gott á LSH þegar í raun mátti ekkert út af bregða.” Pálmi var einn þriggja frummælenda á
<a href="/frettir/innlent/2013/02/19/erum_komin_fram_af_bjargbruninni/" target="_blank">fundi læknaráðs Landspítalans</a>15. febrúar síðastliðinn þar sem vandi Landspítalans var ræddur. Hann segir að horfast þurfi í augu við raunveruleikann, þora að ræða opið og af hreinskilni um stöðu mála og horfur til framtíðar.
„Vandamál LSH er niðurskurður fjármagns, gömul hús, gömul tæki en líka úrelt hugsun,” segir Pálmi. „Sú hugsun sem gerir gamalt fólk tortryggilegt á LSH á rætur í hugsun sem hefði verið góð og gild árið 1970. Þá var húsakostur LSH helmingi yngri og ævilíkur Íslendinga voru tíu árum skemmri en nú. Á þeim tíma hrifsuðu bráðasjúkdómar fólk til sín á góðum aldri. Margir af sigrum læknisfræðinnar eru fólgnir í því að breyta bráðum sjúkdómum í langvinna, sem fólk lærir að lifa með um árabil.”
Pálmi bendir á að þörf sé á nýjum húsakosti, þar með talið öldrunarspítala á háskólalóð, nýjum tækjum, en ekki síst nýrri hugsun sem horfir til framtíðar. „2030 fremur en 1970. Þá munu ævilíkur Íslendinga hafa vaxið um tæp fimm ár til viðbótar. Opna þarf nú þegar legurými, þannig að meðtaltalsnýting á legudeildum lyflænissviðs verði í kringum 85-90%. Með því býr starfsfólk við eðlilegri starfsskilyrði, gangainnlagnir væru óþekktar og LSH þyrfti ekki að fara í neyðarstöðu, þó að óhjákvæmilegar sveiflur í aðsókn sæust, svo sem með slæmum faröldrum eða hópslysum.“
Pálmi segir að hafa þurfi í huga að Landspítalinn væri eina almenna sjúkrahúsið á
höfuðborgarsvæðinu. „Ef hugsað er um eldra fólk með eitt bráðavandamál og svo þörf fyrir endurhæfingu, þá eru þarfir eldra fólks stórlega vanmetnar. Eldra fólk þarf á að halda heildrænu öldrunarmati sem tekur á öllum viðfangsefnum samtímis og hverfist um greiningu, meðferð og endurhæfingu. Hér kemur hin nýja hugsun inn: Gamalt fólk er ekki eldra miðaldra fólk, fremur en að börn eru lítið fullorðið fólk.”
Pálmi líkir starfsemi LSH við Icelandair. „Bæði fyrirtækin eru þjónustufyrirtæki þar sem öryggi á að vera í öndvegi. Þau keppa bæði á alþjóðlegum markaði. Sá mannafli, sem LSH vill laða til starfa, hefur sótt sína sérhæfingu erlendis og hefur margvísleg tækifæri þar, ekki aðeins hvað varðar laun, heldur einnig tækjakost og vinnuaðstæður. Flugfélag tekur sérstaklega á móti þeim sem fljúga oft og býður þeim vildarþjónustu í betri stofu og á sérstöku farrými. Samkvæmt því ætti eldra fólk með sérstakar þarfir ekki að þurfa að koma endurtekið til að fá úrlausn sinna mála. Það þarf nútímalega nálgun á viðfangsefni þess og þegar nýtt sjúkrahús verður byggt þarf sérstakan öldrunarspítala á háskólalóðinni.”„Nú, í aðdraganda kosninga, þarf ekki aðeins að ræða um fjármálahrunið, vanda fyrirtækja og heimila heldur einnig heilbrigðisþjónustuna sem hangir á bláþræði. Það á ekki aðeins við um LSH heldur um heilsugæslu og sérfræðiþjónustu í víðasta skilningi.”