„Mér finnst óábyrgt af honum að henda upp þessum bolta á þessum vettvangi. Það er ekki hlutverk borgarstjórnar að lögleiða fíkniefni, ef menn ætla sér það, heldur Alþingis.“
Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag um ummæli Jóns Gnarrs borgarstjóra á borgarstjórnarfundi í gær. Hún segir að nú sé verið að vinna að nýrri forvarnaáætlun og þá skuldi hann Reykvíkingum svör. Sé þetta hluti af stefnunni eða verður stefnubreyting boðuð í forvarnamálum, spyr hún.
Að sögn Mörtu kvaddi Jón Gnarr sér þar hljóðs í umræðu um aðalskipulag borgarinnar, nánar tiltekið skapandi borg. Hún segir Jón hafa rætt m.a. um atvinnustarfsemi í borginni og bent á að sér þætti sniðugt fyrirkomulagið í Denver, vinaborg Reykvíkinga, þar sem svokallaðir hassstaðir væru löglegir. Marta segir Jón hafa fullyrt að þeir væru atvinnuskapandi fyrir ýmsar stéttir, s.s. garðyrkjufræðinga, lyfjafræðinga, iðnaðarmenn og fleiri.