Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt rússneskan karlmann á fertugsaldri í tólf mánaða fangelsi fyrir að flytja til landsins 300 grömm af kókaíni. Maðurinn kom til landsins 12. nóvember sl. frá París og fundu tollverðir fíkniefnin í úlpuvasa hans.
Maðurinn játaði sök en sagðist hafa verið burðardýr og neyddur til að fara í ferðina. Hann hafi hvorki skipulagt né fjármagnað ferðina en ætlaði að greiða spilaskuldir með ágóðanum.
Þessu mótmælti ákæruvaldið harðlega og benti á að maðurinn hefði margsinnis komið til landsins áður og meðal annars sent peninga til landsins í þeim tilgangi að kaupa hótel. Engin gögn hafi verið lögð fram um að aðrir hafi komið að skipulagningu ferðarinnar og frásögn um spilaskuldir sé ótrúverðug.
Dómurinn féllst á rök ákæruvaldsins og taldi að framburður mannsins um að hann hefði verið burðardýr væri ótrúverðugur. „Verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi sjálfur kostað ferð sína hingað til lands og skipulagt innflutninginn í sölu- og hagnaðarskyni.“
Miðað við styrkleika kókaínsins hefði verið hægt að búa til 559 grömm af efni til sölu, miðað við hefðbundin neyslustyrkleika kókaíns.