Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hélt í dag ræðu við O. P. Jindal Global University í Nýju-Delí á Indlandi. Hann vill að Ísland verði tilraunastöð fyrir félagslegt réttlæti.
„Í upphafi ræðu sinnar fór Ögmundur yfir sögu íslensku þjóðarinnar frá landnámi til dagsins í dag, um Alþingi og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en Indverjar fengu sjálfstæði frá Bretum um svipað leyti og Íslendingar fengu sitt sjálfstæði. Þá fór Ögmundur yfir þær breytingar sem áttu sér stað á 9. og 10. áratugnum þegar ferli einkavæðingar hófst á Íslandi, bankar voru seldir og fyrirtæki í opinberri eigu einkavædd. Allt traust var sett á hin einkavæddu fyrirtæki, þau áttu að skapa velferð og vöxt fyrir alla. Þessu ferli hafi lokið í hruninu og síðan hafi það verið verkefni skattgreiðenda á Íslandi, almennings, að taka til eftir skipbrotið og endurreisa samfélagið með tilheyrandi þrengingum og niðurskurði.
Ögmundur fjallaði um möguleg áhrif hlýnunar jarðar á Ísland og nánasta umhverfi þess bæði hvað varðar félagsleg og efnahagsleg kjör sem og umhverfismál. Hér þyrftu öll ríki á norðurslóð að gæta sín vel, mikið kapphlaup væri hafið um auðlindir á norðurslóðum og aðstöðu í grennd við nýjar siglingaleiðir sem hugsanlega myndu opnast í þessum heimshluta. Í þessu samhengi væru stórveldin farin að gera sig gildandi á norðurslóðum. Ögmundur sagði að einkenni fyrri tíma væri „greed is good“, græðgi væru gæði, en nú væri þessu snúið við og vegferðin sem fara þyrfti væri að láta þessa villuvegvísa hverfa og halda þess í stað frá græðgi til góðs. Í lok ræðu sinnar sagði Ögmundur að hann vildi að Ísland yrði fyrirmynd á alþjóðavettvangi varðandi félagslegt og efnahagslegt réttlæti,“ að því er segir á vef innanríkisráðuneytisins.