Líf ríkisstjórnar hangir á bláþræði

Atkvæði Guðmundar Steingrímssonar og Þráins Bertelssonar munu ráða niðurstöðu vantrauststillögu …
Atkvæði Guðmundar Steingrímssonar og Þráins Bertelssonar munu ráða niðurstöðu vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands á þriðjudag. mbl.is/Ómar

Það er óhætt að segja að líf ríkisstjórnarinnar hangi á bláþræði þessa dagana eftir vantrauststillögu Þórs Saari. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru 30 á meðan þingmenn stjórnarandstöðuflokka og óháðir þingmenn í stjórnarandstöðu eru 33. Lyktir málsins eru þó ekki svo einfaldar.

Á ríkisstjórnin Bjarta framtíð?

„Ég hef áður setið hjá í vantrausti og ég geri heldur ráð fyrir því að ég geri það aftur, en á eftir að sjá hvernig þetta er rökstutt og hvaða forsendur liggja að baki,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar spurður út í afstöðu sína til tillögunnar.

Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru 25. Jón Bjarnason, Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir eru óháðir stjórnarandstöðuþingmenn í dag, en voru öll kjörin á þing fyrir Vinstri græna. Samanlagt eru þetta 28 stjórnarandstöðuþingmenn sem talið er víst að muni samþykkja vantraust á ríkisstjórnina auk Þórs sjálfs.

Studdi síðast og „ekkert breyst“

„Síðast þegar borin var upp vantrauststillaga þá studdi ég hana. Það var aðallega vegna skuldamála heimilanna, endurreisnar bankanna og ýmislegt sem ég hef verið mjög ósátt við og það hefur ekkert breyst,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. Að því gefnu að hún styðji vantraust er öruggt að 30 þingmenn geri það. Ekki náðist í Birgittu Jónsdóttur við vinnslu fréttarinnar.

Varamaður Róberts styður ríkisstjórnina

Þingmenn Bjartrar framtíðar eru tveir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall. Róbert var kjörinn á þing fyrir Samfylkinguna en lét af stuðningi við ríkisstjórnina í fyrra. Hann er nú erlendis og á meðan gegnir Anna Margrét Guðjónsdóttir störfum hans á Alþingi, en hún tilheyrir þingflokki Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnin hefur því 31 þingmann á bak við sig næstu tvær vikurnar þangað til Róbert snýr aftur til starfa.

Eru örlög tillögunnar í höndum Þráins Bertelssonar?

Ekki er langt síðan Þráinn Bertelsson lýsti því yfir í viðtali við mbl.is að ef stjórnarskrármálið yrði ekki klárað myndi hann jafnvel styðja vantraust á ríkisstjórnina. Eins og það mál stendur í þinginu í dag er alls óvíst að það klárist fyrir þinglok. Styðji Þráinn vantraust á ríkisstjórnina er tillaga Þórs Saari komin með 31 öruggt atkvæði en ríkisstjórnin þá með 30 atkvæði á móti. Hvort sem Birgitta Jónsdóttir styðji tillögu Þórs eða sitji hjá má ljóst vera að í þessari stöðu væri vantraust samþykkt á ríkisstjórn.

Atkvæði Guðmundar Steingrímssonar skiptir miklu

En þó Þráinn Bertelsson hafi áður lýst yfir að hann hefði ekki mikla þolinmæði eftir gagnvart ríkisstjórninni er alls óvíst að hann styðji vantraust. Og þrátt fyrir að afstaða Birgittu Jónsdóttur liggi ekki fyrir má vel gefa sér að hún styðji tillögu Þórs - flokksbróður síns. Komi sú staða upp mun tillaga Þórs fá 31 atvæði á þingi gegn 31 atkvæði stjórnarliða. Þá fellur tillagan á jöfnu, nema Guðmundi Steingrímssyni snúist hugur og styðji vantraust.

Ekki útilokað að breytingatillaga verði lögð fram

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is að Sjálfstæðismenn myndu styðja vantraust en það væru útfærsluatriði sem þyrfti að ræða frekar hvernig starfsstjórn fram að kosningum yrði skipuð og þær dagsetningar sem fram koma í tillögu Þórs Saari. Það er því möguleiki að fram komi breytingatillaga hvað varðar umrædd efnisatriði úr röðum Sjálfstæðismanna.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði útilokað að Framsóknarflokkurinn myndi verja ríkisstjórnina, en vildi ekki tjá sig nánar um efni vantrauststillögunnar og sagði hana órædda í þingflokknum.

Nær öruggt að munurinn verður lítill hvernig sem fer

Hvað sem öllu líður er ljóst að það verður spennuþrungið loftið í þingsalnum á þriðjudag þegar vantrauststillagan kemur til afgreiðslu, breytt eða óbreytt.

Líf ríkisstjórnarinnar veltur á því hvernig Þráinn Bertelsson greiðir atkvæði, en ekki síður á því hvort Guðmundur Steingrímsson muni sitja hjá eða á endanum taka efnislega afstöðu til vantrauststillögunnar.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is
Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna.
Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Vantrautstillagan verður afgreidd á Alþingi þriðjudaginn 26. febrúar 2013.
Vantrautstillagan verður afgreidd á Alþingi þriðjudaginn 26. febrúar 2013. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert