Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að áform Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 tengist ekki uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Suðurnesjum. Nauðsynlegt sé að leggja línuna til að bæta orkuöryggi á Suðurnesjum.
Landsnet hefur óskað eftir að land verði tekið eignarnámi vegna lagningar línunnar. Þórður segir að búið sé að ná samkomulagi við um 80% landeigenda sem ráði yfir 62% landsins þar sem reiknað er með að línan liggi, en slitnað hafi upp úr samningaviðræðum við nokkra landeigendur. Hann segir að ágreiningur aðila sé ekki um eignarnámsbætur heldur vilji þeir einfaldlega ekki að línan verði lögð um landið.
Línan mun liggja að stærstum hluta við hlið Suðurnesjalínu 1 en þó fjær byggðinni við Hafnarfjörð en núverandi lína.
Þórður segir að það sé hins vegar rétt að ef það verði atvinnuuppbygging á Suðurnesjum eftir að háspennulínan hafi verið lögð þá sé hægt að auka spennu á línunni og nota hana til að flytja rafmagn til nýrra fyrirtækja á Suðurnesjum.
Landsnet hefur tvisvar áður óskað eftir að land sé tekið eignarnámi vegna lagningar háspennulína. Það gerðist síðast við lagningu Fljótsdalslínu. Þá náðust ekki samningar við 5 landeigendur. Eftir að ráðuneytið hafði skoðað málið óskaði það eftir því að Landsnet gerði á ný tilraun til að ná samningum við tvo landeigendur. Það tókst en land í eigu þriggja eigenda var tekið eignarnámi. Einnig var land tekið eignarnámi þegar lögð var lína frá Nesjavöllum.
Landsvirkjun er tilbúin til að hefja undirbúning framkvæmda í sumar, en Þórður segir óvíst hvenær ráðuneytið afgreiðir beiðni Landsnet um eignarnám. Hann segir að framkvæmdin sé búin að fara í umhverfismat, línan sé komin inn á aðalskipulag allra 12 sveitarfélaganna sem málið snertir og búið sé að sækja um framkvæmdaleyfi. Þá sé búið að sækja um leyfi til Orkustofnunar og ekkert hafi komið annað fram en að það leyfi fáist fljótlega. Þórður segir að ef ekki fáist leyfi frá atvinnuvegaráðuneytinu fyrir því að taka landið eignarnámi verði ekkert af framkvæmdinni.