Óska eftir eignarnámi vegna Suðurnesjalínu

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Landsnet hefur ákveðið að leita eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til að taka tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi til að geta hafið framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2, háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar.

Samningar hafa tekist við fjóra af hverjum fimm landeigendum um 62% lands á leið væntanlegrar línu en ítrekaðar samningsumleitanir við aðra landeigendur reyndust árangurslausar.

Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins í sjö ár í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög. Umhverfisáhrif Suðurnesjalínu 2 voru metin og framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaganna.

Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets. Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 2,2 milljarðar króna og áætlaður framkvæmdatími hálft annað ár, frá júlí 2013 til ársloka 2014. Mannaflaþörf verkefnisins er 42 ársverk og gert ráð fyrir að allt að 50 manns vinni að því þegar umsvifin verða hvað mest, síðsumars 2014.

„Núverandi Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskaga við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni oft valdið straumleysi og vandkvæðum. Flutningsgeta línunnar, sem rekin er á 132 kV spennu, er fullnýtt. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem valdið getur verulegu tjóni hjá notendum. Það er því brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.

Suðurnesjalína 2 er þannig nauðsynleg framkvæmd í almannaþágu og þolir ekki frekari bið, enda hvílir sú lagaskylda á Landsneti að tryggja öryggi og rekstur flutningskerfis raforku. Tvær háspennulínur í stað einnar munu auka verulega rekstraröryggi  raforkukerfis á svæðinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Suðurnesjalína 2 mun liggja um eignarlönd 20 jarða, þar af hafa samningar tekist við eigendur 11 jarða og viðræður standa yfir við eigendur tveggja jarða til viðbótar. Eigendur Vatnsleysu og Landakots hafna samningum og sömuleiðis eigendur þriggja annarra jarða að hluta: Knarrarness, Ásláksstaðahverfis og heiðarlands Vogajarða.

Landsnet kynnti öllum landeigendum framkvæmdaáform sín vorið 2011 og síðan þá hafa verið margir samningafundir og mikil samskipti átt sér stað milli Landsnets og landeigenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert