„Málið er í raun og veru búið. Ég held að allir viðurkenni það en því er haldið í öndunarvél vegna stuðnings Hreyfingarinnar við þessa ríkisstjórn,“ segir Vigdís Hauksdóttir þingmaður um stöðu stjórnarskrárfrumvarpsins en hún á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Hún segir engar viðræður fara fram um framhald málsins, fregnir um það í fjölmiðlum hafi aðeins verið spuni. Í tillögu sem lögð var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær er gert ráð fyrir fjórðu breytingu meirihlutans á auðlindaákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í umfjöllun um stjórnarskrármálið í Morgunblaðinu í dag, að þótt breytingin á ákvæðinu sé til bóta sé það hvergi nærri nóg.