Vantrauststillaga lögð fram

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Kosið verður um vantraust á hendur ríkisstjórninni á Alþingi á þriðjudag, að sögn Þórs Saari þingmanns Hreyfingarinnar. Í tillögu til þingsályktunar um vantraust, sem Þór lagði fram í dag, er farið fram á að þing verði rofið eigi síðar en 28. febrúar og efnt verði til þingkosninga 13. apríl. Fram að kjördegi sitji starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.

Þór segist hafa óskað eftir því við forseta Alþingis að tillagan verði tekin á dagskrá þingsins á þriðjudaginn, 26. febrúar, og verður það gert að hans sögn. Ekki náðist í Ástu R. Jóhannesdóttur þingforseta til að fá þetta staðfest.

Vantrauststillaga Þórs er á því byggð að ríkisstjórnin geti ekki afgreitt frumvarp til stjórnskipunarlaga, byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október.

Í greinargerð með tillögunni segir Þór að lýðræðisumbætur sem lofað hafi verið í aðdraganda kosninga hafi ekki séð dagsins ljós og enn sé við lýði ójafn kosningaréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.

„Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd. Lagt er til að fram að kjördegi sitj starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar,“ segir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert