Eðlileg afskipti af ritstjórn

Ari Edwald
Ari Edwald mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Auðvitað er það stjórnar þessa fyrirtækis að ákveða það hvers lags miðla við viljum gefa út,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, sem kveðst ósammála því að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ristjórnarvinnu. Tilefnið er grein Magnúsar Halldórssonar um Jón Ásgeir Jóhannesson.

Greinin heitir „Litli karlinn“ en þar skrifar Magnús, sem er viðskiptaritstjóri Stöðvar 2 og Vísis, m.a: „Það versta er að Jón Ásgeir hefur í nokkur skipti að undanförnu, reynt með ósmekklegum hætti, að því er mér finnst, að setja þrýsting á blaðamenn með því að koma umkvörtunum, vegna sannra og löglegra frétta um hann, félög sem hann tengist og dómsmál er hann tengist persónulega, til stjórnar fyrirtækisins og æðstu stjórnenda.“

Skrifin komu á óvart

Ara koma þessi skrif í opna skjöldu.

„Ég verð að segja að mér kemur þessi grein og innihald hennar afskaplega mikið á óvart. Ég kannast ekki við neinar kvartanir frá yfirmönnum þessa manns um að þessar fréttastofur séu beittar þrýstingi eða hafi fengið upplýsingar um að hann hafi kvartað við þá um að hafa orðið fyrir einhverjum slíkum þrýstingi. Það sem ég les efnislega úr bréfinu er annars vegar umfjöllun um stöðu Jóns gagnvart félaginu. Þar finnst mér hann vera að snúa úr hlutum sem hafa verið vel skýrðir. Þ.e.a.s. sem lúta að skipuriti félagsins.

Það hefur komið skýrt fram í póstum til allra starfsmanna 365 og þar á meðal til Magnúsar að það hefur engin breyting orðið á stöðu Jóns Ásgeirs gagnvart félaginu og hún er óbreytt frá því sem hún hefur verið misserum saman. Hann hefur gegnt ráðgjafastörfum við fyrirtækið og ekki verið þar í fullu starfi. Það var tekið skýrt fram þegar síðasta skipurit var kynnt að á þessu hefði ekki orðið breyting heldur væri verið að skýra hans stöðu gagnvart þróunarsviði og að hverju hans ráðgjafaverkefni beindust. En um hans stöðu var fjallað í fjölmiðlum og Morgunblaðið birti meðal annars viðtal við mig og birti svör. Ég tel að það hafi komið alveg skýrt fram. Þannig að mér finnast það vera rangfærslur að leggja það út á þann veg að eitthvað hafi breyst þar,“ segir Ari og víkur að samskiptum stjórnar fyrirtækisins og ritstjórna.

Lagðar línurnar um vinnubrögðin

„Svo varðandi afskipti af einstökum fréttum eða það að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ristjórnarvinnu að þá er ég alls ekki sammála því að það sé svo. Auðvitað er það stjórnar þessa fyrirtækis að ákveða það hvers lags miðla við viljum gefa út. Þess vegna er eðlilegt að stjórnin tali til miðlanna með almennum hætti og helst með skriflegum hætti. Það er það sem við teljum okkur hafa gert með siðareglum sem stjórn félagsins setti í júní 2009 fyrir allar ritstjórnir 365 miðla.

Þar eru lagðar línurnar um þau vinnubrögð sem stjórnin ætlast til að séu viðhöfð á miðlunum. En það beinist ekkert frekar að eigendum fyrirtækisins heldur en öðrum. Það beinist að því hvaða verklag skuli haft við vinnslu frétta almennt. Þær athugasemdir sem ég þekki frá Jóni Ásgeiri snúa að því að reglum hafi ekki verið fylgt. Nú geta menn deilt um það hvernig slíkar athugasemdir eru settar fram eða greint á um túlkun reglna. En að minnsta kosti er það ljóst að hans sjónarmið hefur verið það að hann ætti að njóta sömu stöðu gagnvart miðlunum eins og allir aðrir landsmenn í íslensku samfélagi.

Þá nefni ég til dæmis það að reglurnar leggja mikla áherslu á að þegar menn eru til umfjöllunar – eins og til dæmis í Williams-málinu sem Magnús nefnir – þar sem mögulega er verið að bera Jón sökum um refsiverða háttsemi, að þá telur Jón klárlega að það felist í siðareglum félagsins að það beri að leita eftir sjónarmiðum frá andlagi fréttarinnar. Þ.e.a.s. að slíkar fréttir eigi ekki að flytja viðstöðulaust án þess að leita sjónarmiða frá þeim sem til umfjöllunar er. En hans athugasemd er sem sagt að það sem hann telur að eigi við í sínu tilviki myndi líka eiga við í tilviki allra annarra og að það sé ekki verið að fylgja reglum sem hafa verið settar í þessu tilviki þar sem hann er að gera athugasemdir,“ segir Ari og heldur áfram.

Viðhaldi háum gæðastaðli

„Það getur auðvitað verið að menn greini á um hvað eigi við í einstökum tilvikum. En blaðamenn verða auðvitað að sæta því að það séu reglur og þær eru til dæmis settar til að vernda trúverðugleika miðlanna, þannig að þeir séu ekki að segja rangar fréttir, hvaða reglur eru um það á hvaða heimildum skuli byggja og að þegar viðkvæmir fréttir eru fluttar eða óvelkomnar sé leitað sjónarmiða frá þeim sem til umfjöllunar eru og svo framvegis. Slíkar reglur eru auðvitað settar til að halda háum gæðastaðli á fréttaflutningi miðils sem ætlar sér ekki að vera eitthvað sorprit.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert