Fyrrverandi bæjarstjóri boðuð til starfa

Guðrún Pálsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.
Guðrún Pálsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.

Guðrún Pálsdóttir, sem hefur verið á bæjarstjóralaunum í Kópavogi í heilt ár, án þess að mæta í vinnu, verður boðuð til starfa 1. mars nk. Hún mun sinna ýmsum verkefnum sem bæjarstjóri ákveður.

Þetta kemur fram í svari bæjarlögmanns við fyrirspurn Guðríðar Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar, sem lagt var fram á bæjarráðsfundi Kópavogs í dag.

Guðrún Pálsdóttir var ráðin bæjarstjóri eftir síðustu kosningar. Meirihlutinn sprakk hins vegar í fyrravetur og hætti Guðrún þá sem bæjarstjóri. 15. febrúar 2012 var gert samkomulag við Guðrúnu um að hún fengi laun áfram sem bæjarstjóri og að hún myndi 1. september taka við starfi sviðsstjóra. Sú hugmynd var skoðuð að stofna sérstakt svið menningarmála hjá Kópavogsbæ, en niðurstaða stjórnsýsluúttektar var hins vegar á þann veg að ekki væru til staðar forsendur til að stofna slíkt svið. Guðrún kom því ekki til starfa 1. september og er raunar ekki enn komin til starfa.

Stjórnendur Kópavogsbæjar buðu Guðrúnu að taka við starfi forstöðumanns menningarmála hjá Kópavogsbæ, en í stjórnsýsluúttektinni er gerð tillaga um að stofna það starf. Það felur hins vegar ekki í sér stöðu sviðsstjóra. Guðrún hafnaði þessari málaleitan enda hafði henni verið lofað sviðsstjórastöðu.

Í svari bæjarlögmanns segir að Guðrún hafi 1. febrúar sl. verið boðuð til starfa sem sviðsstjóri og „hefur nú að nýju verið boðuð til starfa frá 1. mars nk. að telja,“ eins og segir í bréfinu.

Í bréfinu segir að starf Guðrúnar muni fela í sér vinnu að verkefnum sem bæjarstjóri ákveður. Meðal verkefnanna eru að leiða stefnumótun bæjarins, umsjón og gerð árangursmælikvarða í samstarfi við gæðastjóra, efling stjórnenda hjá Kópavogsbæ í stjórnendahlutverki sínu, leiða verkefni sem stuðla að auknu samstarfi sviða bæjarins með því að hámarka skilvirkni í starfsemi bæjarins og að bæta ferla, leiða verkefni á sviði liðsheildar hjá Kópavogsbæ, gerð ýmissa fjárhagsreikninga og skýrslur um rekstur og fjármál stofnana, sviða og deilda bæjarins.

Guðríður Arnardóttir óskaði í dag eftir að þetta mál verði rætt sérstaklega á næsta fundi bæjarstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert