Jón Ásgeir reynir að þrýsta á blaðamenn

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur í nokkur skipti að undanförnu reynt að setja þrýsting á blaðamenn með því að koma á framfæri umkvörtunum til æðstu stjórnenda 365 miðla vegna sannra og löglegra frétta um hann, félög og dómsmál honum tengdum. Þetta segir Magnús Halldórsson blaðamaður á pistli á Vísi.is.

Magnús er viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis, sem hvort tveggja tilheyrir 365 fjölmiðlasamsteypunni en stærsti eigandi fyrirtækisins er Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs.

Virðingarleysi fyrir trúverðugleika ritstjórna

Í pistlinum „Litli karlinn“, sem birtist í kvöld, lýsir Magnús afstöðu sinni til nýlegra skipuritsbreytinga hjá 365 þar sem Jón Ásgeir var skilgreindur sem yfirmaður þróunarverkefna hjá fyrirtækinu. Magnús segir að með þessu sé eins og Jón Ásgeir sé að fá eins konar upphefð hjá 365 ofan í „[fordæmalaus] málaferli sem honum tengjast.“

Þetta segir Magnús vera virðingarleysi fyrir því sem öllu skipti í fjölmiðlavinnu: Trúverðugleika ritstjórnanna. „Það væri auðvelt að gera gagn fyrir fyrirtækið, og starfsmenn þess, með því að taka ákvörðun um að Jón Ásgeir komi ekki nálægt störfum fyrir fyrirtækið á meðan óvissu er eytt fyrir dómstólum um hvort hann sé stórfelldur hvítflibba-glæpamaður eða ekki. Það er ekkert lítið mál.

Sú óvissa er sannarlega fyrir hendi, samkvæmt ákæru og rannsóknum sem eru í gangi. og hún er óþægileg fyrir trúverðugleika fréttaþjónustu sem blaðamenn sinna, núna á sögulegum tímum, þegar uppgjör atburðanna fordæmalausu haustið 2008 – og á árunum á undan – stendur sem hæst. Hún er samt verst fyrir lesendur, hlustendur og áhorfendur. Þeir efast um heiðarleika fréttaþjónustunnar vegna Jóns Ásgeirs og tengsla hans við eignarhaldið, margir hverjir,“ segir Magnús.

Viðkvæmur fyrir fréttum af dómsmálunum

Það versta er að sögn Magnúsar að Jón Ásgeir hafi með ósmekklegum hætti reynt að setja þrýsting á blaðamenn. „Svo virðist sem Jóni Ásgeiri finnist þetta eðlilegt, þar sem þetta hefur ítrekað gerst, en í ljósi þess að hann er nátengdur eignarhaldi fyrirtækisins, sem eiginkona hans er skráð fyrir sem stærsti eigandi og jafnframt stjórnarformaður, þá ætti hann að hugsa sig tvisvar um áður en þetta er gert, segir Magnús.

Jón Ásgeir hefur að sögn Magnúsar verið sérstaklega viðkvæmur fyrir fréttum af málum þar sem hann mun mögulega, eða hefur þurft, að svara fyrir sakir frammi fyrir dómara. 

„Það er kannski betra fyrir Jón Ásgeir og stjórn 365 að vita það, að þessi mál öll er tengjast Jóni Ásgeiri og ekki síst umkvörtunum hans til stjórnar og lögmanna, sem beinast gegn einstaka blaðamönnum, eru rædd hér innanhúss í fullri alvöru og af engri léttúð. Það er líka eðlilegt að þetta sé til umræðu út á við, vegna þess að þangað sækja blaðamenn umboð sitt í reynd, til almennings,“ segir Magnús.

Hann klykkir út með því að segja að blaðamenn taki þessum umkvörtunaraðferðum Jóns Ásgeirs „eins og hverju öðru pípi sem algjörlega óþarft er að óttast hvað fréttaþjónustuna og blaðamennskuna varðar.“ Það sé þó ástæðulaust, og líka ábyrgðarhluti, að þegja yfir þeim „vegna þess hve fráleitar þær eru og óheiðarlegar, að mínu mati“.

Pistill Magnúsar Halldórssonar í heild: Litli karlinn

Jón Ásgeir stýrir hagræðingu hjá 365

Magnús Halldórsson viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis.
Magnús Halldórsson viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka