Kynningar á sjávarútveginum í grunnskólum landsins

Frá kynningunni í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði í morgun.
Frá kynningunni í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði í morgun.

Víðistaðaskóli í Hafnarfirði tók vel á móti þeim Heiðdísi Skarphéðinsdóttur og Sigfúsi Ó. Guðmundsyni, verkefnastjórum hjá Íslenska sjávarklasanum, í morgun þegar þau mættu í fyrsta tíma dagsins til að kynna sjávarútveginn fyrir nemendum í 10. bekk.

Verkefnið sem um ræðir hefur verið í vinnslu frá því síðasta sumar og hefur það að markmiði að efla vitund og vekja áhuga á sjávarútvegi meðal yngri kynslóða. Borið hefur á miklu áhugaleysi í garð sjávarútvegsins hjá nemendum á bæði grunnskóla- og framhaldsskólastigi og er þetta verkefni liður í að snúa við þeirri þróun og stuðla að auknum áhuga ungs fólks að öllu sem viðkemur sjávarútvegi. Aðalstyrktaraðilar verkefnisins eru Tryggingamiðstöðin og Landssamband Íslenskra Útvegsmanna.

Nú þegar hafa verið haldnar kynningar fyrir nemendur í sex grunnskólum á Suðurnesjunum, fyrir Grunnskóla Vestmannaeyja, Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og þrír skólar hafa fengið kynningu í Hafnarfirði. Allir skólarnir og fulltrúar þeirra hafa tekið vel á móti Heiðdísi og Sigfúsi og nemendur áhugasamir um tækifærin sem liggja í haftengdum greinum sem endurspeglast í áhugaverðum spurningum nemenda.

Framundan eru fleiri kynningar í Hafnarfirði og Garðabæ, og verið er að undirbúa bókanir á fleiri kynningum á höfuðborgarsvæðinu en ætlunin er að halda kynningar á sem flestum landsvæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert