Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur ákveðið að draga tillögu sína um vantraust á ríkisstjórnina til baka. Í tilkynningu sem hann sendi til þingmanna segir að hann hafi fengið ábendingar um „hugsanlegan formgalla“ á tillögunni og því dragi hann tillöguna til baka.
„Formenn stjórnarflokkanna hafa farið fram á flýtimeðferð með málið og ég tel að svona mál eigi ekki að fara í flýtimeðferð,“ sagði Þór í samtali við mbl.is, þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði dregið tillöguna til baka.
Þór vildi að vantrausttillagan yrði tekin til umræðu á þriðjudaginn í næstu viku. Þingflokksformenn Samfylkingarinnar og VG hafa hins vegar skrifað forseta Alþingis bréf og þar sem þess er krafist að tillagan verði tekin til umræðu á Alþingi strax í dag.
Þór sagði æskilegt að afgreiða svona tillögu sem fyrst. „En samkvæmt þingsköpum á svona mál að liggja frammi í tvær nætur áður en það er afgreitt. Þau vilja keyra málið áfram með flýtimeðferð. Ég lagði til að málið yrði ekki rætt fyrr en eftir helgi til að gefa þeim þannig svigrúm til að koma fram með áætlun um stjórnarskrána. Það var minn sáttavilji í því efni og vonaðist til að stjórnarflokkanir myndu taka við sér um helgina, en þau hafa greinilega einhverjar aðrar hugmyndir um framgang þessa máls.“
Þór sagðist ekki hafa fengið neinn ádrátt frá stjórnarflokkunum um að stjórnarskrármálið verði klárað fyrir þinglok.
„Það sem þau gerðu var að telja hausa. Þau telja að þau hafi nægilega mörg atkvæði til að fella tillöguna í dag þar sem nokkrir þingmenn eru erlendis og það næst ekki að koma þeim heim í tíma. Það er viðbúið að staðan verði önnur eftir helgi. Ég útiloka ekki að tillagan kom fram eftir helgi. Ég legg hins vegar áherslu á að stjórnin komi fram með áætlun um lúkningu stjórnarskrármálsins og þá er þetta mál úr sögunni,“ sagði Þór.