Styðja innleiðingu mannréttindasáttmála SÞ

Frá fundi Öryrkjabandalagsins í gær.
Frá fundi Öryrkjabandalagsins í gær.

Allir flokkar styðja innleiðingu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta kom fram á fundi sem Öryrkjabandalagið stóð fyrir í gær um réttindi fatlaðs fólks.

Góð aðsókn var að fundinum sem var haldinn á Hilton hótelinu í Reykjavík en honum var einnig sjónvarpað beint um heimasíðu Öryrkjabandalagsins og þar verður hægt að skoða upptöku frá fundinum.

Flokkum sem hafa tilkynnt um framboð á landsvísu í Alþingiskosningunum í lok apríl næstkomandi var boðið að koma á fundinn og fræðast um málið og kynna afstöðu sína til innleiðngar mannréttindasáttmálans. 

Alls þekktust ellefu flokkar boðið og sendu fulltrúa sína á fundinn en þeir voru: Freyja Haraldsdóttir (Björt framtíð), Þorvaldur Þorvaldsson (Alþýðufylkingin), Örn Bárður Jónsson (Lýðræðisvaktin), Metúsalem Þórisson (Húmanistaflokkurinn), Áslaug María Friðriksdóttir (Sjálfstæðisflokkurinn), Kjartan Örn Kjartansson (Hægri grænir), Birkir Jón Jónsson (Framsóknarflokkur), Ragnar Ingólfsson (Dögun), Halldóra Mogensen (Píratarnir), Ólafur Þór Gunnarsson (Vinstri grænir) og Jónína R. Guðmundsdóttir (Samfylkingin).

Áður en fulltrúar flokkanna svöruðu spurningum um afstöðuna til innleiðingar mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, héldu þær Rannveig Traustadóttir forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við HÍ og Brynhildur Flóvenz dósent við lagadeild HÍ stutt erindi. Rannveig fjallaði um sögu, samhengi og hugmyndafræði að baki sáttmálans og Brynhildur fjallaði um skyldur íslenska ríkisins samkvæmt samningnum.

Fundarstjóri var Ragnar Gunnar Þórhallsson en þau Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalagsins, Gerður A. Árnadóttur, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp og Margrét Steinarsdóttur, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands tóku þátt í pallborði og lögðu spurningar fyrir fulltrúa flokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert