„Klukkan tvö birti aftur til og ég sá pólstöðina. Þá fór í gang tilfinningarússíbani; ég sá fyrir endann á ferðalaginu og háskældi. Fór svo að skellihlæja og þannig gekk það koll af kolli.“ Þannig lýsti Vilborg Arna Gissurardóttir síðustu metrunum að suðurpólnum í fyrirlestri sínum fyrr í dag.
Vilborg Arna hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum MBA náms en hún útskrifaðist einmitt úr því námi árið 2011. Hvert sæti var skipað og átti Vilborg Arna hvert bein í áhorfendum á meðan hún lýsti för sinni á suðurpólinn og fyrri ferðum, sem voru síst hættuminni.
Fyrirlesturinn var nefnilega ekki aðeins um ferðina á suðurpólinn heldur um þroskasögu Vilborgar Örnu í lífinu. „Þegar ég var 18 ára vissi ég ekki hvað ég ætlaði að gera í lífinu, var týnd.“ Hún sagðist hafa sett eitt met á þessum árum, þ.e. að vera að rekin úr þremur menntaskólum. „Mér þótti þetta leiðinlegt, þó ég léti á engu bera, og mér leið illa yfir þessu. Þegar ég svo varð tvítug var ég enn á sama stað í lífinu. Vinir mínir voru að útskrifast af hinum þessum brautum en ég var á sama stað.“
Hún sagði að sá brandari hefði gengið um í fjölskyldunni að hún væri margskólagengin en ekki langskólagengin. „En það er ekki þar með sagt að þó manni mistakist einu sinni að það verði alltaf þannig.“
Ferð Vilborgar á suðurpólinn kostaði tíu milljónir króna. Þar er mestur kostnaður, eða sjö milljónir króna, í Suðurskautsþjónustu. Fylgst er með pólförum á leiðinni og þeir hringja sig inn á hverju kvöldi. Ef ekki heyrist frá pólfara í 48 klukkustundir er leitarflokkur sendur af stað. Þá er greitt fyrir þrjár birgðasendingar en pólfarar ráða hversu margar af þeim þeir taka.
Sökum þessa mikla kostnaðar þurfti Vilborg að safna pening. „Og það gekk ekki vel í byrjun, enda ég ekki staðalímynd pólfara.“
Á endanum tókst henni að safna því sem hún þurfti. Sjálf þurfti hún að fórna ýmsu enda nýbúin að ráða sig í gott starf og koma sér fyrir í nýrri íbúð. „Ég þurfti að fórna þessu til þess að komast af stað, en sé ekki eftir því.“