Þingflokksformenn Samfylkingarinnar og VG vilja að tillaga Þórs Saari um vantraust á ríkisstjórnina verði tekin til umræðu á Alþingi í dag. Þeir ætla að leggja fram dagskrártillögu þessa efnis þegar þingfundur sem hefst kl. 10:30 í dag.
Þór Saari sagði í gær að hann hefði óskað eftir við forseta Alþingis, að tillagan yrði tekin til umræðu á þriðjudaginn. Hann gaf jafnframt til kynna að hann kynni að draga tillöguna til baka ef ríkisstjórnin legði fram trúverðuga áætlun um hvernig hún ætlaði að ljúka afgreiðslu stjórnarskrármálsins á þessu þingi.
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, staðfest við mbl.is að hún og þingflokksformaður VG myndu leggja fram dagskrártillögu við upphaf þingfundar á eftir um að vantrauststillagan yrðu tekin til umræðu í dag.
Oddný var spurð hvers vegna hún vildi að tillagan yrði tekin fyrir í dag. „Við viljum bara drífa þetta af,“ sagði Oddný. „Það er hefð fyrir því að þegar tillaga um vantraust kemur fram þá hún tekin strax fyrir. Það vill enginn hafa það hangandi yfir sér í marga daga.“
Ýmis mál eru á dagskrá Alþingis í dag, en ekki var reiknað með að þingfundur stæði langt fram eftir degi því að síðdegis hefst landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, setur fundinn kl. 17.