„Á sama tíma og ég upplifði hrylling yfir ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins fylltist ég von,“ sagði Daði Heiðrúnarson Sigmarsson, formaður VG í Reykjavík, í opnunarræðu landsfundar VG fyrir stundu. Sagði Daði sjálfstæðismenn ætla að vinda ofan af þeim góðu verkum sem ríkisstjórnin hefði unnið að.
Daði gagnrýndi efnahagstillögur sjálfstæðismanna og sagði hugmyndir þeirra um skattafslátt til handa þeim sem standa skil á húsnæðislánum til þess fallnar að ýta undir verðbólgu.
Það ynni þvert á það markmið Sjálfstæðisflokksins að halda verðbólgu niðri og koma á stöðugleika.
Þá væru hugmyndir sjálfstæðismanna um skattalækkanir þess eðlis að þær yrðu afturhvarf til skattastefnu sem kom hinum tekjuhæstu að mestum notum.
„Vinstri grænir byggja ekki á gróðasjónarmiðum ... heldur berjast fyrir jöfnuði og réttlæti,“ sagði Daði í ræðu sinni.
Lauk hann ræðu sinni með þeim orðum að það væri verk að vinna að tryggja áframhaldandi setu VG í ríkisstjórn og uppskar dynjandi lófatak.