Einn virtasti og elsti flugvirkjaskóli í heimi, Air Service Training (AST) í Skotlandi, hefur sett upp útibú frá skóla sínum hjá Flugakademíu Keilis á Ásbrú. Þar er nú boðið upp á tveggja ára samþykkt bóklegt og verklegt iðnnám fyrir flugvirkja "Approved IR Part 66 Category B". Námið fer fram á ensku og veitir nemendum alþjóðleg réttindi til starfa í fjölbreyttu starfsumhverfi að viðhaldi flugvéla af öllum stærðum og gerðum.
Í fréttatilkynningu segir að miklir alþjóðlegir atvinnumöguleikar séu fyrir flugvirkja og góð tækifæri til frekari menntunar og starfsþróunar, en ráðgert er að það vanti um 600.000 flugvirkja á næstu 20 árum til að mæta áætlaðri fjölgun flugvéla í heiminum. Ráðgert er að hluti námsins á öðru ári fari fram hjá AST í Skotlandi þar sem nemendur munu fá möguleika á að sérhæfa sig, auk þess að öðlast mikilvæga reynslu á námi og störfum í alþjóðlegu umhverfi.
AST er viðurkenndur þjálfunaraðili til útgáfu flugvirkjaréttinda samkvæmt gæðastöðlum EASA. Fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám við skólann á undanförnum árum, en þeir boðið upp á nám í flugvirkjun í tæp áttatíu ár.
Flugvirkjanám AST hjá Keili hefst 4. apríl næstkomandi. AST og Keilir munu í upphafi bjóða 28 námspláss og þurfa nemendur að vera orðnir 18 ára, auk þess að hafa almennt gott vald á ensku.