Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, sagði á aðalfundi Samorku í dag að gæði og öryggi orkuflutnings hér á landi fullnægði ekki stöðlum. Tíðar truflanir og jafnvel skemmdir á tækjum hömluðu þróun byggða á svæðinu þar sem raforkuflutningskerfið er ein af mikilvægustu stoðum nútímasamfélags.
Guðmundir sagði að ört vaxandi rafmagnsnotkun væri á Norðausturlandi m.a. vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja. Framleiðslugeta Blöndustöðvar og Fljótsdalsstöðvar væri vannýtt. Möguleiki á aukinni notkun væri hins vegar takmörkunum háð, jafnvel fyrir almenna uppbyggingu, vegna þessa að byggðalína væri fulllestuð.
Guðmundur sagði að fyrir rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna hefði olíukostnaður þeirra verið 5 milljarðar og CO2 útblástur frá þeim verið 120 þúsund tonn. Horfur séu á að árið 2015 verði olíukostnaður verksmiðjanna 1,6 milljarðar króna og útblástur um 40 þúsund tonn. Hann sagði að allt benti til að allar fiskimjölsverksmiðjurnar yrðu rafvæddar á næstu árum ef flutningskerfið annaði því.
Guðmundur sagði að flutningskerfi sem hefur takmarkaða flutningsgetu sé vanbúið til að takast á við meiriháttar áföll. „Flutningskerfið á Íslandi mætir ekki þeim kröfum sem eðlilegt er að gera í nútímasamfélagi til jafn mikilvægrar starfsemi,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur sagði að uppbygging raforkuflutningskerfisins hefði verið lítil m.a. vegna andstöðu við byggingu háspennulína. Stefnumótun stjórnvalda í jarðstrengsmálum væri nauðsynleg til að tryggja aukna sátt um uppbyggingu flutningskerfisins.
Hann sagði að Landsnet áformaði að fjárfesta í dreifikerfinu fyrir 77 milljarða á næstu 10 áru. Ef setja ætti allar þessar línur í jarðstrengi myndi það kosta 221 milljarð.