Ari Edwald segir stöðu Ólafs Þ. Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, óbreytta, en hann sagði í dag að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði reynt að hafa áhrif á skrif um sig í blaðinu. Ari gerir ekki athugasemd við þá skoðun Ólafs að ekki hefði þurft að fá sjónarmið Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í fréttaumfjöllun um málefni tengd honum.
Hann telur þó að blaðamaðurinn Magnús Halldórsson hafi ekki gert rétt þegar hann vakti máls á afskiptum Jóns Ásgeirs af fréttaumfjöllun á opinberum vettvangi.
Fram kom í máli Magnúsar, sem er viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis, að Jón Ásgeir hafi sett þrýsting á blaðamenn með því að koma umkvörtunum um umfjöllun þeirra um hans mál á framfæri við stjórn og æðstu stjórnendur fyrirtækisins.
Færri en þrjú tilvik á ári
Aðspurður hvort Jón Ásgeir hafi oft sett út á fréttaflutning segir Ari að þau tilvik séu „færri en þrjú á ári“ að meðaltali. Þau hafi hins vegar verið vegna þess að ekki hafi verið leitað hans sjónarmiða við fréttaöflun. „Ég tel að það hafi verið réttari vinnubrögð að leyfa Jóni Ásgeiri að koma sínum sjónarmiðum að í umfjölluninni. Ég tel hins vegar ljóst af viðbrögðum Ólafs að hann telji að það hafi ekki verið nauðsynlegt. Það er gott og blessað og hann hefur þá aðra skoðun á því,“ segir Ari.
Hann segir stöðu Ólafs ekki taka neinum breytingum þó ólík sjónarmið séu á lofti. „Við viljum hafa öfluga og sterka ritstjóra sem hafa skoðanir á málunum og standa keikir með sínum miðlum,“ segir Ari.
Hann bendir á að hjá 365 miðlum séu siðareglur. Í þeim segir meðal annars að hagsmunir eigenda séu aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu efnis.
„Það er fínt að þessi umræða um eignarhaldið farið fram. Allir eru hins vegar sammála um það, líka Magnús Halldórsson, að engum fréttum hafi verið breytt og engar fréttir teknar til baka vegna utanaðkomandi aðila,“ segir Ari.
Magnús kominn út fyrir sitt verksvið
Jón Ásgeir er yfirmaður þróunarverkefna hjá 365, sem m.a. á og rekur fréttastofu Stöðvar 2, Vísi og Fréttablaðið. Í pistli sínum lætur Magnús þá skoðun sína í ljós að hann telji að Jón Ásgeir eigi að víkja úr starfi „á meðan óvissu er eytt fyrir dómstólum um hvort hann sé stórfelldur hvítflibba-glæpamaður eða ekki“.
Ari telur að Magnús sé þarna kominn út fyrir verksvið sitt sem blaðamaður. „Mér finnst Magnús ganga ansi langt þegar hann segir blaðamenn hafa rétt á því að hluthafar eða, aðilar tengdir hluthöfum eða þeir sem hafa með rekstur félaga að gera, haldi sig frá störfum um einhvern tíma,“ segir Ari.
„Mér finnst alveg fráleitt að gera þá kröfu að Jón Ásgeir haldi sig frá viðskiptaverkefnum félagsins þó hann sé umdeildur. Með svona skrifum eru menn komnir langt út fyrir hlutverk ritstjórna,“ segir Ari.
Engin eftirmál
Ari gerir einnig athugasemd við það hvernig Magnús kom málinu á framfæri. „Það liggur alveg fyrir að ég tel að menn eigi að fyrst að koma umkvörtunarefnum sínum á framfæri innan fyrirtækisins. Ég tel ekki rétt að gera áhlaup á opinberum vettvangi. Ég kannast ekki við að Magnús hafi komið neinum ábendingum við sína yfirmenn á framfæri og hann hefur engum ábendingum komið á framfæri við mig. Ég tel að það hefði verið betra fyrir hann að taka á þessu innan fyrirtækisins áður en hann tæki svo stórt upp í sig í þessari grein,“ segir Ari.
Ari segir að málið muni ekki hafa nein eftirmál fyrir Magnús. „Umræðan um afskipti eigenda er góð og ég er ekki að segja að málið muni hafa einhver eftirmál fyrir hann. Við erum ekki viðkvæm fyrir umræðu. Þessi mál þarf að ræða með rökum og hvort farið sé eftir réttu verklagi,“ segir Ari.