Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, segist geta staðfest að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi verið mjög ósáttur við fréttaflutning af sjálfum sér í Fréttablaðinu og gert tilraunir til að hafa áhrif á hvernig skrifað er um hann.
Ólafur sagði þetta í viðtali á Bylgjunni í morgun í tilefni af skrifum Magnúsar Halldórssonar blaðamanns hjá 365-miðlum á Vísi í gær.
„Þarna er Magnús að segja að Jón Ásgeir hafi reynt að hafa ósmekkleg afskipti af störfum blaðamanna hjá 365 miðlum. Þetta er góð grein hjá Magnúsi,“ sagði Ólafur Stephensen, en tók jafnframt fram að Magnús væri ekki á ritstjórn Fréttablaðsins, sem hann stýrir, heldur á ritstjórn Stöðvar tvö, Bylgjunnar og Vísis.
„En vandaður blaðamaður eins og hann Magnús er ekki að fara með neitt bull,“ sagði Ólafur.
„Ég get bara sagt það að ég kannast alveg við það að Jón Ásgeir hafi verið mjög ósáttur við fréttaflutning af sjálfum sér í Fréttablaðinu og já vissulega gert tilraunir til að hafa áhrif á hvernig við setjum þær fram, en það er líka jafnrétt hjá Magnúsi í þessari grein, og þá tala ég bara fyrir mína ritstjórn, en ég held að það eigi jafnt við um hina fréttastofuna, að við látum það ekki hafa áhrif á okkur og höfum ekkert leyfi til þess.“
Ólafur sagði að blaðamenn fréttastofanna störfuðu eftir siðareglum sem samþykktar væru af stjórn 365-miðla, en þar segi að hagsmunir eigenda skuli ekki hafðir til hliðsjónar við vinnslu efnis. „Við stöndum mjög fast á því,“ sagði Ólafur.