Mjólkurbúið KÚ hefur óskað eftir undanþágu til innflutnings á lífrænni mjólk frá Danmörku og segir Mjólkursamsöluna beita einokunarstöðu til að loka fyrir hráefnissölu til einstakra aðila sem eru henni ekki þóknanlegir. Síðan KÚ kærði MS til samkeppniseftirlitsins hefur búið nánast enga lífræna mjólk fengið.
„Það er ekki hægt að búa við þetta,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri mjólkurbúsins KÚ. „Það er vont að geta ekki afgreitt vöru svo vikum skiptir af því að við fáum ekki hráefni til að láta fyrirtækið ganga.“
Í janúar kærði mjólkurbúið KÚ Mjólkursamsöluna til Samkeppniseftirlitsins fyrir að brjóta samkeppnislög með því að krefja KÚ um hærra verð fyrir hrámjólk en aðra kaupendur.
KÚ úti í kuldanum
Mjólkurbúið KÚ framleiðir ostinn Glaðning úr lífrænni mjólk sem keypt hefur verið frá Mjólkursamsölunni. Frá áramótum hefur að sögn Ólafs gengið mjög erfiðlega að fá hráefni til framleiðslunnar frá Mjólkursamsölunni án þess að viðhlítandi skýringar hafi fengist. Því hefur KÚ óskað eftir heimild atvinnuvegaráðuneytisins til að flytja inn allt að 8.000 lítrum á viku af lífrænni mjólk frá Danmörku.
„Við væntum þess að ráðuneytið bregðist fljótt og vel við þessari beiðni okkar því það er ekki hægt að una við að Mjólkursamsalan geti í krafti einokunarstöðu lokað fyrir hráefnissölu til einstakra aðila sem eru henni ekki þóknanlegir,“ segir Ólafur.
Skýringarnar sem Mjólkursamsalan gefur eru að framboðið af lífrænni mjólk hafi verið lítið undanfarið. Ólafur segir að KÚ óski ekki eftir neinni sérmeðferð en finnist eðlilegt að skerðingin bitni þá hlutfallslega jafnt á öllum en ekki þannig að einn aðili sé settur alfarið út í kuldann.
Lífræn framleiðsla olnbogabarn
Ólafur er auk þess þeirrar skoðunar að lífræn mjólk sé olnbogabarn sem Mjólkursamsalan hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á að byggja upp. Í henni felist mikið tækifæri fyrir ísland.
„Íslenska mjólkin hefur aðra eiginleika en mjólk í okkar nágrannaríkjum en þetta þarf að kynna betur. Í því geta verið ákveðnir útflutningsmöguleikar fyrir okkur þegar fram í sækir og þess vegna held ég að þetta ætti að vera brýning fyrir íslenska landbúnaðarforystu að skoða sinn gang varðandi lífræna framleiðslu.“
Aðspurður segir Ólafur að KÚ sé fullkomlega alvara með að flytja inn mjólk frá Danmörku og hafi þegar gert samning við birgi þar svo innflutningur geti hafist um leið og grænt ljós fáist frá ráðuneytinu. Hann segist þó heldur kjósa íslensku mjólkina.
„Við viljum helst íslenskt hráefni, það er besta hráefnið, en auðvitað viljum við fyrst og fremst geta skaffað okkar kúnnum vöru og til þess að láta fyrirtækið funkera verðum við að hafa aðgang að hráefni. Við teljum að það verði að byggja upp þennan markað og að íslenskir bændur eigi að vinda sér í að fara að framleiða meira af lífrænni mjólk svo við getum skaffað íslenskum neytendum eftirsótta vöru.“