VG mikilvægasti flokkurinn

Steingrímur hélt þrumandi ræðu yfir flokksfélögum sínum á Hilton Nordica …
Steingrímur hélt þrumandi ræðu yfir flokksfélögum sínum á Hilton Nordica hótelinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur enginn stjórnmálaflokkur skipt meira máli síðustu 15 ár en VG. Það er pólitísk staðreynd. Það er ekkert nýtt við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekkert nýtt við Framsókn,“ sagði Steingrímur í síðari hluta ræðu sinnar á landsfundi VG í Reykjavík í dag.

Sagði Steingrímur Samfylkinguna einnig hafa haft lítið nýtt fram að færa. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefði hins vegar reynst endurnýjandi afl í íslenskum stjórnmálum.

„Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur skrifað marga merka kafla í íslenska stjórnmálasögu nú þegar... Við settum mál á dagskrá sem hafa verið nær algerlega útlæg í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Steingrímur og nefndi umhverfismálin. Aðrir flokkar hefðu fylgt í fótspor VG með „grænni málningu“.

Þá hefði VG einn flokka sett kvenfrelsismál á oddinn og þannig fylgt í fótspor Kvennalistans sáluga. Barátta gegn vændi, klámi, mansali og kynbundnu obeldi væru dæmi um stefnumótun í anda þeirrar hugmyndafræði.

„Ég var sakaður um að vilja stofna netlögreglu ... þegar ég sagði að það þyrfti að vera hægt að berjast gegn klámi og ofbeldi á netinu... Voru ekki birtar dýrar auglýsingar í kosningabaráttu á sínum tíma?“ sagði Steingrímur og lýsti yfir efasemdum um að nokkur flokkur myndi þora því núna. Það væri dæmi um hvernig VG hefði útvíkkað þá ramma samfélagslegra viðmiða sem aðrir flokkar hefðu síðar lagað sig að.

Steingrímur hóf ræðu sína á að vísa til fjögurra formanna systurfélaga VG á Norðurlöndum. Ávarpaði hann síðan Högna Hoydal, formann Þjóðveldisflokksins, sérstaklega á íslensku en færeyski forystumaðurinn talar íslensku. Brá Steingrímur síðan fyrir sig færeysku og dönsku eftir því sem við átti. 

Nauðsynlegt að gera málamiðlanir

Steingrímur sagði mikilvægt að geta gert málamiðlanir í stjórnmálum. Hörð andstaða við málamiðlanir væri ekki líkleg til að skila árangri.

„Á meðan við erum ekki með hreinan meirihluta kjósenda að baki okkar verðum við að vinna með öðrum að lausnum,“ sagði Steingrímur.

Árangurinn leyndi sér ekki.

„Vinstrihreyfingin - grænt framboð gerði það sem hún var stofnuð til að gera, að vinna Íslandi gagn... að gera örlítið brot af heiminum betra.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefði tekið við mjög erfiðu búi á vormánuðum 2009.

„Við fengum ekki þjóðarsátt í arf,“ sagði Steingrímur og sagði flokkana sem það gerðu í upphafi tíunda áratugarins vera búna að gleyma þeim fórnum sem færðar voru árin áður en þeir komust til valda til að umrædd sátt gæti orðið að veruleika.

Komið af hættusvæðinu

Steingrímur minnti á ræðu Geirs H. Haarde haustið 2008 þar sem sá síðarnefndi bað Guð að blessa Ísland. 

Á þeim tíma hefði umræðan um stöðu efnahagsmála á Íslandi verið sambærileg við umræðuna um Grikkland fram á þennan dag.

Nú væru þær raddir þagnaðar.

Steingrímur rifjaði jafnframt upp að „landið hafi verið á barmi gjaldþrots og ríkissjóður við það að fara á hausinn“.

Því hefði verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að stoppa upp í fjárlagagatið, ella hefði verið hætta á að rekstur ríkissjóðs yrði ósjálfbær á nokkrum árum.

„Það var ekki síst gjaldþrot Seðlabanka Íslands sem hefur reynst dýrt eða sem svarar hálfri milljón króna á hvern Íslending ... þegar Seðlabankinn varð gjaldþrota undir stjórn ónefnds manns,“ sagði Steingrímur og uppskar hlátur.

Heimurinn horfi til Íslands

Steingrímur sagði aðrar þjóðir horfa til þess árangurs sem ríkisstjórnin hefði náð við endurreisn efnahagslífsins og samfélagsins eftir efnahagshrunið.

„Aðalástæðan er hinn sterki félagslegi þáttur í okkar aðgerðum,“ sagði Steingrímur og nefndi m.a. hvernig lögreglunni hefði verið hlíft í niðurskurðinum.

Sú hætta væri ávallt fyrir hendi við niðurskurðaraðgerðir að gengið væri of langt, líkt og Bretar, undir forystu Íhaldsflokksins, hefðu upplifað að undanförnu.

Steingrímur sagði „ójöfnuð hafa aukist gríðarlega“ á árunum fyrir hrun.

Það hefði breyst undir stjórn vinstrimanna.

„Hlífum þeim tekjuminni en látum þá tekjumeiri taka á sig meiri byrgðar,“ sagði Steingrímur og vitnaði til rannsókna í háskólunum og Gini-stuðulsins sem sannindamerkja um vaxandi jöfnuð.

Sagði Steingrímur mikilvægt að tíminn leiddi í ljós að þessi hugmyndafræði skilaði ekki aðeins meiri jöfnuði heldur líka efnahagslegum ávinningi.

„Því þá fáum við fleiri liðsmenn með okkur sem hugsa meira með maganum en höfðinu,“ sagði Steingrímur og hlógu þá margir í salnum.

„Kapítalismi andskotans“

Steingrímur gagnrýndi „siðlausa græðgisvæðingu“ bóluáranna fyrir hrun.

Sú útfærsla af kapítalisma hefði falið í sér græðgi, fésöfnun í skattaskjól, falskt góðæri og þá kröfu að almenningur skyldi borga tapið þegar bólan var sprungin.

Taldi Steingrímur þessa útfærslu af auðstefnu réttnefnda „kapítalisma andskotans“.

Steingrímur vék því næst að góðum félögum í VG sem „ferjumaðurinn mikli“ hefði kallað til sín á kjörtímabilinu.

Mikil tækifæri Íslendinga

Að því loknu vék hann að þeim miklu tækifærum sem Íslendingar stæðu frammi fyrir. Líklega væri Grænland eina landið þar sem meiri landkostir væru á hvern íbúa en á Íslandi.

Lífeyrissjóðirnir hefðu yfir að ráða sjóðum sem væru ígildi norska olíusjóðsins ef deilt væri niður á hvert mannsbarn.

„Ef við skiptum jafnt og bróðurlega ... og leyfum aldrei aftur græðginni, sjálfselskunni og hrokanum að fá völdin eru Íslandi allir vegir færir.“

„Lifið heil. Lifi Vinstrihreyfingin - grænt framboð,“ sagði Steingrímur í lokaorðum og risu þá fundargestir úr sætum.

Yfirgaf formaðurinn fráfarandi sviðið undir dynjandi lófataki.

Spiluðu tónlistarmennirnir Kristjana Stefánsdóttir og Ómar Guðjónsson þá Maístjörnuna og tók salurinn vel undir.

Steingrímur J. Sigfússon flytur kveðjuræðu sína sem formaður VG á …
Steingrímur J. Sigfússon flytur kveðjuræðu sína sem formaður VG á landsfundi VG á Hilton-hótelinu í Reykjavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert