„Ég íhugaði hvort ég væri að brjóta á einkalífi þessa fólks, en svo var mér bent á að þegar myndir væru orðnar svona gamlar væri þetta meira saga en einkamál,“ segir Eyjólfur Karl Eyjólfsson, sem keypti kassa af sovéskum myndavélum og fann í einni þeirra áratugagamlar fjölskyldumyndir frá Úkraínu.
Eyjólfur er grúskari og hefur mikinn áhuga á því að gera upp gamla muni. Áhugamálið hefur undið upp á sig því svo virðist sem það sé í tísku að vera svolítið gamaldags þessa dagana. Eyjólfur segir þetta hafa breyst eftir hrun, en hann fór að verða var við að vinir og kunningjar vildu gjarnan kaupa af honum muni sem hann gerði upp. Hann tók að selja muni úr innbúinu hjá sér og grúska eftir nýjum í staðinn. Eftirspurnin jókst og á afmælisdaginn sinn 8. febrúar setti Eyjólfur upp facebook-síðu utan um þetta áhugamál sitt, Reykjavík Skran Company.
Þar birti hann í dag 24 svarthvítar myndir sem hann telur að séu kringum 40-50 ára gamlar og að líkindum frá Úkraínu. Filmuna fann hann fyrir tilviljun í myndavél sem hann pantaði á netinu og fékk senda ásamt fullum kassa af vélum frá gömlu Sovétríkjunum.
Áratuga ferðalag frá Svartahafi í Ármúla
„Ég pantaði í kringum 100 myndavélar fyrir jól og er búinn að finna fimm filmur í þeim. Tvær hef ég framkallað, aðra frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og svo þessa frá Úkraínu. Ég vissi ekki hvort það kæmi neitt út úr framkölluninni því það gat vel verið að það væri búið að opna vélina einhvern tíma á síðustu árum.“
Eyjólfur segir myndirnar gefa skemmtilega innsýn í líf þessarar óþekktu fjölskyldu. „Þetta hefur farið löngu leiðina til mín. Miðað við filmuhylkið giska ég á að þetta séu 40-50 ára gamlar myndir og þær hafa varðveist ótrúlega vel. Það er athyglisvert að svona gamlar myndir sem virðast vera teknar við Svartahafið fari í myndavélinni til Íslands og séu fyrst framkallaðar í Ármúla öllum þessum árum síðar.“
Eins manns drasl er annars djásn
Internetið er mikið ólíkindatól og heyrst hafa sögur af því að myndavélar sem finnist komist í hendurnar á eigendum í andstæðum heimshlutum þegar myndirnar eru birtar. Eyjólfur segir koma til greina að setja myndirnar á vefsíðuna Reddit og sjá hvað gerist. „Það gæti verið gaman að pósta þessu, því þótt eigandinn komi ekki endilega í ljós gæti kannski einhver kannast við staðsetninguna.“
Eyjólfur segir að þetta hafi verið skemmtileg uppgötvun því hann hafi alls ekki búist við filmu í vélinni. Hins vegar sé skransalan hjá honum einmitt þannig, algjör fjársjóðsleit og það hafi margsannast að eins manns drasl er annars djásn.
Heimilið eins og lifandi lager
„Eftir hrun þá breyttist þetta. Á árinu 2007 fóru eflaust hundruð tekkhúsgagna beint á haugana en í dag gengur þetta dýrum dómum á netinu. Hlutirnir geta öðlast nýtt líf og mörgum finnst líka heimilislegra að vera með gamla hluti í kringum sig og vilja kaupa eitthvað sem er alveg eins og aðrir áttu í fjölskyldunni, eitthvað sem þeir tengja við tilfinningalega en eru ekki endilega þess virði að eyða miklum peningum í.“
Viðbrögðin við síðunni hafa verið mjög góð og ekki síst utan af landi að sögn Eyjólfs. Flestar fornmunabúðir eru í Reykjavík og fæstar með heimasíðu, svo eftirspurnin er töluverð annars staðar á landinu. „Ég er búinn að selja Macintosh-dósir og gosflöskur á Stöðvarfjörð, ljósakrónur á Akureyri og kertastjaka á Raufarhöfn. Ég er ekki að binda mig við neitt ákveðið, bara gamlar, fallegar vörur, allt frá úrum og myndavélum í gamlar hrærivélar og húsgögn.“
Sjálf leitin er mesta gamanið
Eyjólfur segist ekki reka eiginlegt fyrirtæki í kringum þetta heldur sé þetta bara áhugamál sem hafi sprungið út. Gripina fær hann stundum gefna í staðinn fyrir að hjálpa til við flutninga, en aðra finnur hann í geymslum, dánarbúum, nytjamörkuðum og á Ebay. „Markmiðið er ekki að verða ríkur heldur hafa gaman af þessu. Ég reyni að finna það sem mér sjálfum finnst flott, það sem er til sölu á síðunni er allt heima hjá mér þannig að heimili mitt er eins og lifandi lager.“
Þá býðst hann til að hafa augun opin fyrir fólk sem er að leita að einhverju ákveðnu. „Það tekur tíma og fyrirhöfn að fara á markaðina og í flestum ferðum þá finn ég ekki neitt, en svo dettur maður um eitthvað. Ef þú ert að leita að ákveðnum stól getur þú farið 10 árangurslausar ferðir áður en þú finnur hann. Þetta er í raun fjársjóðsleit.
Það sem kveikir í mér er að kaupa eitthvað sem ég veit ekki alveg hvernig verður. Ég er sæmilega handlaginn og sá möguleika í því að gera upp bæði skrautmuni og virðuleg húsgögn sem er synd að fari á haugana. Ég kem þeim á nýtt heimili og held svo áfram, því það sem er gaman við þetta er sjálf leitin.“