„Ég vil óska Katrínu til hamingju með glæsilega kosningu og ég gleðst líka yfir mikilli samstöðu og góðri stemningu í tengslum við þennan atburð. Ég gæti ekki verið ánægðri. Ég gæti ekki verið glaðari á þessum degi en ég er. Við erum gæfusöm að eiga Katrínu Jakobsdóttur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, á landsfundi flokksins.
Steingrímur sagði að Katrín væri kjarkmikil. Hún væri að stíga fram á vígvöllinn. Hún vissi að það væri ekki alltaf logn og það væru ekki alltaf jólin. „Hún er glæsilegur fulltrúi þess besta sem við getum vænst í stjórnmálum á komandi árum.“
Steingrímur lét af formannsembætti á fundinum eftir 14 ára starf, en hann var kjörinn formaður við stofnun flokksins árið 1999.