Kristin gildi ráði við lagasetningu

Sjálfstæðismenn vilja að öll lagasetning á Íslandi taki mið af …
Sjálfstæðismenn vilja að öll lagasetning á Íslandi taki mið af kristnum gildum og hefðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Öll lagasetning á Íslandi skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við, samkvæmt ályktun sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. 

Í ályktuninni, sem drög voru lögð að í allsherjar- og menntamálanefnd landsfundar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn telji að kristin gildi séu þjóðinni til góðs „nú sem aldrei fyrr“ og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. 

„Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá,“ segir í ályktuninni sem samþykkt var. Jafnframt að landsfundur telji mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. 

Óánægja meðal ungra sjálfstæðismanna

Ungir sjálfstæðismenn beittu sér fyrir því á landsfundinum í dag að ákvæði um að öll lagasetning skuli taka mið af kristnum gildum og hefðum yrði fellt út, en sú tillaga var felld naumlega og ályktunin samþykkt óbreytt.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, segist á facebook síðu sinni í kvöld vera hneyksluð á því að landsfundur hafi samþykkt ályktunina í þessari mynd. „Lagasetning á aldrei að taka mið af trúarbrögðum og þingmenn eiga alltaf að vera þingmenn einstaklinga ekki trúarbragða.“

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er kveðið á um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Að öðru leyti segir um trúmál í stjórnarskránni að allir eigi rétt á að iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til trúarbragða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka