„Þykir mjög vænt um þig Halldór“

Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni.
Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það kom sá tímapunktur að Halldór Gunnarsson sagði við mig: Ég veit að þér finnst ég leiðinlegur,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og rifjaði upp fjölmarga fundi þeirra Halldórs í Holti á kjörtímabilinu, m.a. á skrifstofu formannsins og í heimasveit Halldórs á Suðurlandi.

Eins og mbl.is hefur sagt frá býður Halldór sig fram  til formanns Sjálfstæðisflokksins en hann hvatti gesti landsfundar jafnframt til að styðja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í formanninn, jafnvel þótt hún sé ekki í framboði.

„Ég veit að í þessum flokki felst styrkleikinn, ekki síst í fjölbreytninni. Ég get sagt ykkur að ef það er eitthvað eitt sem styrkir okkur umfram aðra flokka er það að þora að taka umræðuna... Þess vegna segi ég við vin minn Halldór Gunnarsson: Mér þykir mjög vænt um þig Halldór minn,“ sagði Bjarni.

Sýnir hvernig fjöldahreyfing Sjálfstæðisflokkurinn er

Sagði formaðurinn síðan að sjálfstæðismenn væru saman komnir til að stilla saman strengi, þétta raðirnar og skerpa stefnumálin. Þó væri þetta ekki síður vinafundur. 

„Það er enginn landsfundur eins og landfundur Sjálfstæðisflokksins. Í dag fór fram málefnanefndakjör. Það ber þess merki hvers konar fjöldahreyfing Sjálfstæðisflokkurinn er,“ sagði Bjarni og benti á að um 1.500 manns hefðu leyst út kjörgögnin og tekið þátt í kosningum. 

Á fundinum gæfist tækifæri til þess að hitta glæsilega frambjóðendur og nýja landsfundafulltrúa sem væru í fyrsta sinn að taka þátt í að móta stefnuna á landsfundi.

Sagði Bjarni nauðsynlegt að hefjast handa strax við endurreisn efnahagslífsins. Vinda þyrfti ofan af verkum vinstristjórnarinnar og rjúfa þau klakabönd sem hún hefði skapað. Snúa þyrfti við á þeirri braut og hefja gönguna í rétta átt. 

„Eftir að við höfum unnið kosningasigur í vor verður það verkefni okkar að sameina þjóðina um þessa vegferð,“ sagði Bjarni. 

Síðustu fjögur ár hefði hver höndin verið uppi á móti annarri og engin sameignleg sýn verið meðal ríkisstjórnarflokkanna um stærstu mál. 

„Við ætlum að bæta opinberan rekstur og loka fjárlagagatinu,“ sagði Bjarni og útskýrði hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefði raunhæfar og framkvæmanlegar hugmyndir um aðgerðir í þágu heimilanna. Þær aðgerðir þyrftu engar nefndir, enga starfshópa og fælu ekki í sér neinar tafir, aðeins aðgerðir í þágu heimilanna.

Meiri endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum

Bjarni vék einnig að því að skoðanakannanir bentu til að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 25 þingmenn í kosningunum í vor, þar af 14 nýja þingmenn, sjö karla og sjö konur.

Til samanburðar væri engin nýliðun hjá Samfylkingunni eða VG en örlitil nýliðun hjá Framsóknarflokknum. Hjá „litlu-Samfylkingunni“ Bjartri framtíð yrðu aðeins 11 nýir þingmenn af mögulega 13 þingmönnum flokksins.

„Það er ekki einn einasti frambjóðandi í okkar flokki sem ég myndi skipta út fyrir einn úr röðum hinna,“ sagði Bjarni sem hvatti hvern einasta sjálfstæðismann til að halda vöku sinni svo tryggja mætti sem besta útkomu í alþingiskosningunum 27. apríl.

„Við vitum að það sem mun skipta öllu er að við munum ganga samhent og upplitsdjörf til kosninga.“

Jafn margir karlar og konur

Bjarni vék einnig að hlut kvenna innan Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni á landsfundi í gær er hann sagði að gætt yrði að jöfnum hlut karla og kvenna við ríkisstjórnarmyndum.

„Kannanir benda til þess að fleiri konur verði kjörnar á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor en nokkru sinni fyrr. Auk þess hefur Sjálfstæðisflokkurinn undanfarið mælst með jafnmikið fylgi meðal karla og kvenna. Þetta er mikið gleðiefni.

Við höfum á að skipa öflugri framvarðasveit í Sjálfstæðisflokknum og sterkum listum. Það er valinn maður í hverju rúmi og að sjálfsögðu munum við gæta þess að hlutur karla og kvenna úr okkar röðum verði jafn þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun,“ sagði Bjarni m.a.

Halldór Gunnarsson í Holti
Halldór Gunnarsson í Holti mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert