Offiserinn lá á gægjum

Flestir þekkja söguna af „ástandinu“ í Reykjavík á stríðsárunum þegar íslenskir karlmenn og yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af samneyti hermanna við íslenskar heimasætur. Anna Kristín Gunnarsdóttir safnaði nýlega sögum kvenna á Akureyri sem upplifðu dvöl hermanna í bænum og minna hefur farið fyrir. 

Anna Kristín ræddi við sex konur, sem nú eru um nírætt, sem sögðu frá því hvernig konur sem dirfðust að heilsa hermönnum á götu úti voru nánast stimplaðar sem vændiskonur. Í viðtölunum komu jafnframt fram ýmsar þversagnir í viðhorfum heimamanna gagnvart erlendum mönnum, t.a.m hugnaðist heimamönnum Norðmenn betur en Bretar og Bandaríkjamenn. Þá þótti eðlilegt að heimamenn hefðu áhuga á erlendum hjúkrunarkonum sem dvöldu á Akureyri.

Einn viðmælandi Önnu Kristínar rifjaði jafnframt upp klósettferð samstarfskonu sinnar sem í miðjum klíðum uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að yfirmaður í setuliðinu hafði komið sér vel fyrir og fylgdist með af áhuga.

Samtöl Önnu Kristínar, sem er nemandi í bókmenntafræði, voru hluti af verkefni hennar sem tilnefnt var til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands á dögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert