Átök um Evrópumál á landsfundi

Árni Þór Sigurðsson á landsfundi VG.
Árni Þór Sigurðsson á landsfundi VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkur átök eru á landsfundi VG um hvert framhald aðildarviðræðna við ESB eigi að vera. Eru annars vegar uppi sjónarmið um að klára viðræður og að setja áframhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ályktunin er svohljóðandi að ekki verði haldið áfram viðræðum á næsta kjörtímabili nema því aðeins að meirihluti sé því samþykkur í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Fyrir liggja tvær breytingatillögur. Önnur snýr að orðalagi en hin breytingatillagan snýr að því að klára aðildarviðræður og að þeim verði sett tímamörk. Jafnframt að hreyfingin muni beita sér fyrir því að tryggja breytingar á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB verði bindandi en ekki einungis ráðgefandi.

Í tillögunni er þó tilgreint að VG sé andsnúið inngöngu í ESB. 

Ögmundur Jónasson steig í pontu og sagði að ekki eigi að stefna á ESB-aðild. Taka eigi af öll tvímæli þess efnis og ekki eigi að gefa það í skyn að VG sé opið fyrir þeim möguleika að ganga í ESB. 

Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni að farsælast væri fyrir VG að gefa þjóðinni tækifæri á að segja álit sitt. Það væri lýðræðislega ábyrgt. 

Svandís Svavarsdóttir lét þá skoðun sína í ljós að rétt væri að klára aðildarviðræður. Björn Valur Gíslason, varaformaður, Sóley Tómasdóttir, ritari VG, og Auður Lilja Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri VG, tóku undir með henni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður hreyfingarinnar, lét þá skoðun sína í ljós að réttast sé að setja áframhald málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en hún muni lúta niðurstöðu landsfundar. 

Á næstu mínútum verður skrifleg atkvæðagreiðsla um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert