Unir niðurstöðunni um ESB

Katrín Jakobsdóttir er nýkjörinn formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir er nýkjörinn formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstri grænna, telur farsælla að leita álits þjóðarinnar um hvort halda skuli áfram viðræðum um aðild að ESB. Hún segist þó vel geta unað við niðurstöðu flokkssystkina sinna.

Á landsfundi VG í dag var samþykkt ályktun um að ljúka skuli aðildarviðræðum vð ESB en að ferlinu verði sett tímamörk, t.d. eitt ár frá kosningum. „Niðurstaðan kom að einhverju leyti á óvart miðað við þá umræðu sem hefur verið innan flokksins. Ég talaði frekar fyrir málamiðlun eins og tillaga Árna Þórs bar með sér,“ segir Katrín.

„Niðurstaðan sýnir einfaldlega að það er vilji meðal fólksins í flokknum að standa að baki þeirri ákvörðun sem tekin var um að sækja um aðild. Því er hér verið að árétta að ekki er um stefnubreytingu að ræða.“

Þingmaðurinn Árni Þór Sigurðsson bar upp tillögu þess efnis að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Fékk sú tillaga 46% atkvæða og laut í lægra haldi fyrir tillögu um að ljúka viðræðum.

„Langflestir sem tóku til máls á fundinum eru andsnúin inngöngu í ESB. Þó að ég hafi verið þeirrar skoðunar að farsælla hefði verið að leita álits þjóðarinnar þá er niðurstaða landsfundar lýðræðisleg og því fer fjarri að það sé erfitt sé að verja hana. Því get ég vel staðið með og unað þessari niðurstöðu,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert