Enginn raunverulegur áhugi á ESB

Evrópuþingið í Strasbourg.
Evrópuþingið í Strasbourg. Norden.org

„Það vantar raunverulega umræðu og það er skortur á upplýsingum. Það er enginn raunverulegur áhugi á Íslandi á því að ræða um málefni Evrópusambandsins,“ segir fréttamaðurinn Þorfinnur Ómarsson í viðtali við vefsíðu Evrópuþingsins spurður að því hvenær kunni að koma að því að viðræðurnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hefjist að nýju. Það viti enginn. Hann segist ekki reikna með því að íslenski fáninn eigi eftir að blakta fyrir utan Evrópuþingið í nánustu framtíð.

Þar er skírskotað til þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarflokkanna að hægja á viðræðunum og vinna aðeins með þá viðræðukafla sem þegar er byrjað að ræða formlega en opna ekki nýja kafla. Fram kemur að Evrópusambandið og íslensk stjórnvöld hafi komist að samkomulagi um að hefja viðræðurnar aftur þegar rétti tíminn komi til þess en enginn viti hins vegar hvenær það kunni að verða.

Óvissa um margt varðandi ESB

„Við þurfum að vita hvernig sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins verður. Það liggur ekki fyrir. Við þurfum að vita hvernig bankabandalagið mun líta út. Það hefur ekki verið ákveðið. Slík atriði og sjá hvort sambandið komist út úr þessum efnahagserfiðleikum. Ef það tekst gæti það haft jákvæð áhrif,“ segir Þorfinnur ennfremur og vísar til yfirstandandi endurskoðunar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og áforma um bankabandalag innan þess.

Einnig er rætt við Cristian Dan Preda, þingmann á Evrópuþinginu sem haldið hefur utan um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið fyrir hönd utanríkisnefndar þingsins, og haft eftir honum að sambandið gæti lært mikið af Íslendingum og að reynsla þeirra af sjávarútvegsmálum eigi eftir að koma sér vel fyrir það. Hliðstæð sjónarmið koma einnig fram hjá Indrek Tarand sem einnig á sæti á Evrópuþinginu. Ísland geti lagt mikið að mörkum til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.

Stuðningsmenn inngöngu svartsýnir

„Eins og staðan er hér á Íslandi er enginn stuðningsmaður inngöngu í Evrópusambandið bjartsýnn á að til hennar eigi eftir að koma þar sem þingkosningar eru aðeins eftir tólf vikur og aðeins einn stjórnmálaflokkur talar fyrir inngöngu,“ er ennfremur haft eftir Magnúsi Geir Eyjólfssyni, ritstjóra vefritsins Eyjan.is.

Þá er fjallað um stöðu efnahagsmála á Íslandi og að þróunin hér hafi að mörgu leyti orðið betri en innan Evrópusambandsins og atvinnuleysi tekið sem dæmi sem sé tiltölulega lítið hér miðað við það sem gerist víða innan sambandsins. Þá gangi vel í helstu atvinnugrein landsins, sjávarútvegi. Íslendingar spyrji sig því þeirrar spurningar hvers vegna þeir eigi að ganga í Evrópusambandið. Ekki síst þegar sambandið er að ganga í gegnum verstu erfiðleika sína til þessa.

Viðtalið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert