Fimm stórmeistarar og eitt undrabarn leiða með 6,5 vinninga að lokinni áttundu umferð N1 Reykjavíkurskákmótsins sem fram fór í kvöld í Hörpu.
Stórmeistararnir er þeir Eljanov, Úkraínu, Wesley So frá Filippseyjum, Pólverjarnir Gajewski og Dziuba og og Kínverjinn Ding Liren. Undrabarnið er svo hinn 13 ára Kínverji Wei Yi sem lagði næststigahæsta keppenda mótsins Vachier-Lagrave. Wei Yi gæti orðið yngsti stórmeistari heims á morgun.
Hannes Hlífar Stefánsson er meðal 11 skákmanna sem hafa 6 vinninga eftir góðan sigur á pólska stórmeistaranum Bartosz Socko. Þröstur Þórhallsson og Henrik Danielsen koma næstir Íslendinga með 5,5 vinning.
Bæði Hjörvar Steinn Grétarsson og Friðrik Ólafsson máttu sætta sig við tap í kvöld.
Níunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 16.30. Skákskýringar í umsjón Jóhanns Hjartarsonar hefjast um kl. 18.