Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fjórum ungum konum sem beittu fimmtu konuna ofbeldi í janúar 2012. Meðal annars var fórnarlambið slegið í andlitið, hárið rakað af henni og hún neydd til að afklæðast. Með því eru þær sagðar hafa gerst sekar um líkamsárás og ólögmæta nauðung. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.
Yngsta konan verður tvítug á þessu ári en sú elsta 28 ára, hinar tvær eru á 24. aldursári. Þær veittust allar að stúlku á 24. aldursári í íbúð í Mosfellsbæ laugardaginn 14. janúar 2012. Fórnarlambið var sofandi þegar atlagan hófst og vaknaði við að tvær kvennanna slógu hana ítrekað í andlitið. Í kjölfarið rökuðu þær mest allt hárið af henni með rafmagnsrakvél. Á meðan þessu stóð var fórnarlambinu haldið föstu.
Eftir líkamsárásina neyddu konurnar fórnarlamb sitt úr fötunum með því að hóta því frekara ofbeldi. Fór svo að ein kvennanna klæddi fórnarlambið úr fötunum öllum nema brjóstahaldara.
Í ákæru kemur ekkert fram um ástæður árásarinnar en tildrög hennar kunna að skýrast með einhverju móti við þingfestingu málsins á morgun. Þá mun einnig liggja fyrir afstaða kvennanna til ákærunnar en framhald meðferðar málsins fyrir dómstólum ræðst af miklu leyti af henni.