Tvö erlend fyrirtæki sem gera út skemmtiferðaskip hafa óskað eftir samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Excursions. Hugmynd útgerðarfyrirtækjanna er að erlendu ferðamennirnir komi flugleiðis til landsins en þeir íslensku mæti einfaldlega niður á bryggju.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Excursions.
Alþingi samþykkti í fyrra tillögu Árna Þórs Sigurðssonar alþingismanns um breytingu á 6. grein tollalaga nr. 88/2005. Með breytingunni er skemmtiferðaskipum, sem skráð eru erlendis, gert kleift að gera út tollfrjálst hér við land í allt að fjóra mánuði á ári, segir í tilkynningunni.
Fyrirtækin íhuga að sigla hingað að vori og fara að hausti. Ýmsar stærðir skemmtiferðaskipa koma til greina, allt frá litlum 120 farþega skipum yfir í 1.500 til 2.000 farþega skip.
Í frétt Iceland Excursions segir að skemmtiferðaskip sem sigla til og frá landinu með farþega hafi ávallt notið tollfríðinda, en ekki skip sem skipta ítrekað um farþega hér á landi. Þau hafa talist vera í innanlandssiglingum, og þar með skyld til að greiða tolla og skatta af öllum aðföngum og skila virðisaukaskatti til ríksjóðs. Breytingunni á tollalögum var ætlað að reyna að bregðast við þessu og tryggja bætta samkeppnisaðstöðu Íslands í ferðaþjónustunni.
Boðið upp á spilavíti, næturklúbba og tollfrjálsar veitingar
Iceland Excursions segir í frétt sinni að „vafalítið munu íslenskir farþegar einnig kunna vel að meta lægra verð á veitingum og gistingu um borð sökum þess að enga skatta eða tolla þarf að borga. Til viðbótar verður einnig mögulegt að bjóða upp á afþreyingu s.s. spilavíti og næturklúbba líkt og í skemmtiferðaskipunum sem sigla til og frá landinu.“
Fulltrúar útgerðarfyrirtækjanna hafa einnig spáð í að bjóða upp á ferðir í rólegri kantinum, nokkurs konar „Bótel” þar sem lítið er siglt en þess meira lagt upp úr gistingu um borð í skipi með öllum lystisemdum sem það hefur upp á að bjóða. Með hækkandi olíuverði leita útgerðafélög eftir tækifærum til að spara eldsneyti. Þau hafa áttað sig á því að skipin sjálf hafa mikið aðdráttarafl, óháð því hvort þau eru á ferð eða ekki.
Iceland Excursions segir að búast megi við miklum fjölda erlendra ferðamanna sem ella hefðu ekki komið hingað til lands.
Fyrir flugfélögin verður þessi þjónusta vafalítið kærkomin viðbót. Erlendu farþegarnir koma að úr öllum áttum og því þarf líklegast ekki að fjölga flugvélum eða ferðum, heldur er hér fyrst og fremst um aukna sætanýtingu að ræða, sem aftur stuðlar að betri afkomu félaganna.
Fyrstu ferðir líklega ekki fyrr en 2014
Vegna þess langa tíma sem þarf til að markaðssetja ferðir af þessu tagi erlendis telja útgerðarfélögin ólíklegt að þær geti hafist fyrr en sumarið 2014.
Þó svo að erlendu útgerðarfyrirtækin tvö hafi lýst yfir áhuga á samstarfi við Iceland Excursions um þessar siglingar hér við land, þá hafa þau enga ákvörðun tekið í þeim efnum, segir í fréttinni.
Gera má ráð fyrir að fleiri útgerðarfélög en þessi tvö vilji kanna möguleika á íslenskum innanlandssiglingum og mun þeim öllum verða vel tekið hjá Iceland Excursions.