Vegagerðin varar við miklum skemmdum á klæðningu á Vestfjarðavegi 60 frá Dalsmynni í Borgarfirði til Patreksfjarðar og Bíldudals, á Djúpvegi 61 um Hólmavík til Ísafjarðar, en einnig á Norðurlandi á veginum um Þverárfjall.
Vegagerðin hefur ákveðið að færa þungatakmarkanir á Vestfjarðavegi 60 og Djúpvegi 61 upp í 10 tonn. Það þýðir að flutningabílar geta farið af stað um vegina, en þó ekki fulllestaðir.
Vegfarendur eru varaðir við grjóthruni á Siglufjarðarvegi frá Ketilási til Siglufjarðar eins er varað við ósléttum vegi af völdum sigs í Almenningum.
Vegir eru auðir um allt sunnanvert landið og eins á Vesturlandi. Þoka er á Hellisheiði, Sandskeiði, í Þrengslum og á Vatnaleið.
Á Vestfjörðum er víðast autt en þó eru hálkublettir á Ströndum, norðan Bjarnarfjarðar og þoka er á flestum fjallvegum.
Vegir á Norður- og Austurlandi eru að mestu greiðfærir en hálka eða hálkublettir eru þó sumstaðar á útvegum. Flughált er á Dettifossvegi.
Þungatakmarkanir eru í flestum landshlutum en nánari upplýsingar má fá í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar.
Frétt mbl.is: Aflétta þungatakmörkunum