Vitfirring í vímuefnamálum

Helgi Gunnlaugsson og Annie Machon á fundinum í dag.
Helgi Gunnlaugsson og Annie Machon á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar litið verður til baka á fólk eftir að velta því fyrir sér hverslags vitfirring var í gangi og spyrja sig hvað ráðamenn voru að hugsa. Stríð gegn fíkniefnum sem leiðir til þess að fíkniefni lækka í verði, neysla þeirra eykst sem og framboðið.“ Þetta segir framkvæmdastjóri Evrópudeildar LEAP.

Annie Machon, fyrrverandi njósnari hjá bresku leyniþjónustunni og núverandi framkvæmdastjóri hjá samtökunum LEAP (e. Law Enforcement Against Prohibition), hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands, á vegum félags- og mannvísindadeildar, um bannstefnuna í fíkniefnamálum, afleiðingar hennar og nauðsyn þess að stefnan verði tekin til endurskoðunar og rædd á ábyrgan hátt meðal ráðamanna þjóðríkja.

Í fimm ár, frá árinu 1991, starfaði Machon í innanríkisdeild bresku leyniþjónustunnar, MI5, en ofbauð það sem hún varð áskynja og gerðist uppljóstrari. Hún endaði á flótta um heiminn og var meðal annars í útlegð í Frakklandi í þrjú ár. Machon hefur frá miklu að segja um þessi ár en fyrirlesturinn í dag sneri ekki að henni sem njósnara. Um það tímabil í lífi hennar má lesa í bókinni Spies, Lies and Whistleblowers.

Machon var í fyrra beðin um að taka að sér að starf framkvæmdastjóra Evrópudeildar LEAP, sem eru alþjóðleg samtök fyrrverandi og núverandi saksóknara, lögreglumanna, dómara, þingmanna, njósnara og yfirmanna fíkniefnamála víða um heim. Samtökin hvetja ekki til notkunar vímuefna en meðlimir þeirra eiga það sammerkt að hafa í gegnum störf sín komist að því að stríðið gegn fíkniefnum sé löngu tapað, valdi meiri skaða en gagni og kominn sé tími á nýja sýn og nýjar aðferðir. 

Fíkniefnastríðið löngu tapað

Í fyrirlestri sínum fór Machon yfir það þegar hún komst að raun um það að stríðið væri tapað. Í deild hennar í MI5 var náið fylgst með Írska lýðveldishernum (IRA) sem á árum áður stóð fyrir morðum og sprengjutilræðum á N-Írlandi, Bretlandi og víðar. Meðal þess sem Machon rannsakaði var hvernig IRA kom mönnum og vopnum á milli N-Írlands og Englands, en á þeim árum voru sprengjutilræði nokkuð algeng í London. 

Við rannsókn sína vann Machon náið með tollgæslunni sem fylgdist meðal annars með skipulögðum glæpasamtökum sem fluttu fíkniefni til Bretlands. Varð henni þá ljóst að sömu aðferðum var beitt við að smygla vopnum og fíkniefnum. Einnig að greinilegt var að IRA fjármagnaði starfsemi sína með innflutningi og sölu fíkniefna. Varð henni þá þegar ljóst að þeir sem græddu hvað mest á stríðinu gegn fíkniefnum væru hryðjuverkasamtök sem fjármögnuðu starfsemi einmitt á þessu sama stríði.

Machon nefndi einnig að tollgæslumenn viðurkenndu að stríðið væri tapað. Þeir gætu ekki stöðvað fíkniefnainnflutning til landsins enda væri það eins og að leita að nál í heystakki að finna stórar sendingar fíkniefna. „Stundum voru þeir heppnir og fundu stórar sendingar en það var aðeins dropi í hafið. Frá þeim tíma hef ég vitað að stríðið er tapað.“

Hervæðing lögreglunnar

Hún sagði bannstefnuna hafa víðtækar neikvæðar afleiðingar. Hryðjuverkasamtök um allan heim fjármagni sig með gróða af fíkniefnasölu og það sé svo undarlegt að barist sé á þessum tvennum vígstöðvum, þ.e. að staðið sé í stríði gegn hryðjuverkasamtökum og svo stríði gegn fíkniefnum, á sama tíma og stríðið gegn fíkniefnum fjármagni hryðjuverkasamtökin. Með því að breyta um stefnu í fíkniefnamálum væri öðru stríðinu færra, með gríðarlegum sparnaði, t.d. í löggæslu. Einnig myndu hryðjuverksamtök missa spón úr aski sínum.

Þá hafi glæpir aukist gríðarlega með bannstefnunni. Lögreglan í Bandaríkjunum og Bretlandi sé ekki lengur nærþjónusta við almenning heldur hafi hún verið hervædd. Gráir fyrir járnum ráðist lögreglumenn inn á heimili fólks til þess eins að taka neysluskammta af kannabisefnum. Þeir taki í raun vímuefni af fullveðja einstaklingi sem engum veldur skaða, handtaka hann og jafnvel dæma í fangelsi. Og enginn skilur í raun hvers vegna, nema kannski lögreglan sjálf. Machon sagði fíkniefnalögreglu í Bandaríkjunum hafa heimild til að gera upptækt svo gott sem allt sem hún finnur hjá einstaklingi með fíkniefni á sér. Það geti verið ágóði fíkniefnasölu. Þær eignir eru seldar og renna til fíkniefnalögreglunnar. Þannig hafi fíkniefnalögreglan beinlínis hagsmuna að gæta. Fjármögnun hennar byggist á því að að ná sem mestu. Það geti orðið til þess að fíkniefnalögreglumenn brjóti gegn mannréttindum einstaklinga með því til dæmis koma á þá efnum.

Þá nefndi hún afleiðingar fíkniefnastríðsins í Mexíkó þar sem meira en 62 þúsund saklausir borgarar hafa lent í átökunum, þeim verið rænt, þeir pyntaðir og líflátnir. 

Góður árangur nokkurra Evrópuríkja

Machon sagði ekkert benda til þess að minna væri af fíkniefnum í umferð en áður. Og ekkert benti til þess að fólk ætlaði að láta af neyslu fíkniefna þó svo refsing liggi við vörslu þeirra. Því þyrfti að ræða þessi mál og íhuga að fara aðrar leiðir. Til dæmis að fara sömu leið og með áfengi og tóbak. Skattleggja efnin og stýra sölunni. Fara leið skaðaminnkunar, þar sem neysla efnanna væri heimiluð eða varðaði ekki við lög.

Í þessu sambandi minntist Machon á góðan árangur í Hollandi, Belgíu, Sviss og Portúgal. Í síðastnefnda landinu hefur notkun allra efna verið heimiluð og ekki er litið á neytendur fíkniefna sem glæpamenn, frekar sjúklinga, sem fá aðstoð. Með því að losa lögregluna undan því verkefni að eltast við fíkniefnaneytendur hefur um leið verið hægt að færa mun meira fjármagn í heilbrigðiskerfið. Þar hefur neysla fíkniefna minnkað, glæpatíðni minnkað og heilsufar batnað.

Í Sviss var öllum sprautufíklum komið af götunum með því að útbúa aðstöðu fyrir þá þar sem þeir geta nálgast hrein efni og öruggt umhverfi. Frá þeim tíma hefur ekki orðið dauðsfall af völdum of stórs skammts, að því er Machon segir. Svo góð reynsla var af þessu verkefni að þegar kosið var um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda ætti því áfram fékk það svo gott sem einróma stuðning.

Ræða þarf málin málefnalega

Machon sagði LEAP standa heilshugar við þessa stefnu en þó mætti gera betur. Fíkniefnasala væri enn í höndum glæpamanna þó að hægt væri að nota efni örugglega. Það þyrfti því að setja upp reglugerð um fíkniefnamarkaðinn. Þar væru 500 milljarðar Bandaríkjadala sem rynnu til glæpamanna. Með reglugerðum og skattlagningu væri hægt að færa þessa fjármuni til þjóðríkja. Það myndi svo leiða til þess að afbrotum fækkaði.

Annað sem hún nefndi er að með því að stýra sölunni og skattleggja væri erfiðara fyrir börn og ungmenni að komast í fíkniefni. „Það er auðveldara fyrir krakka í dag að komast í kannabisefni heldur en áfengi úr verslun. Það væri því verið að vernda börnin.“

Hún hvatti til þess að málin yrðu rædd á málefnalegan hátt. Fólk verði ekki að fíkniefnaneytendum þó svo það sé hlynnt annarri stefnu í málaflokknum. „Af hverju er ekki hægt að líta til þess að hægt er að vera án bannstefnunnar. Það hefði í för með sér minnkandi ofbeldi og skipulögð glæpasamtök missa spón úr aski sínum.“

Þá tók hún dæmi um bannárin í Bandaríkjunum, þegar áfengi var gert ólöglegt. Þá hefðu áfengismál farið í nákvæmlega sama farveg. Skipulögð glæpasamtök stóðu að innflutningi og dreifingu áfengis. Ofbeldi jókst og á endum voru það mæður í Chicago sem tókst að fá áfengið leyft á ný, en þær höfðu áhyggjur af börnum sínum sem áttu auðveldara með að nálgast áfengi en áður auk þess hversu algengt ofbeldi var.

Snarrótin stóð að komu Machon

Snarrótin, sem eru samtök um borgaraleg réttindi, standa að komu Machon til landsins en hún fundar meðal annars með íslenskum ráðamönnum og lögreglu. Þá er opinn fundur með Machon um fíknistríð og skaðaminnkun annað kvöld og annar um refsistefnu í vímuefnamálum á miðvikudagskvöldið. Nánari upplýsingar um fundarstaði og fundatíma má finna á vefsvæði Snarrótarinnar.

Á vefsvæði Snarrótar segir að félagsmenn samtakanna álíti mikilvægt að íslensk yfirvöld, bæði ríkisstjórn og sveitarstjórnir, snúi frá þeirri blindu bann- og refsihyggju sem ríkt hafi í þessum málaflokki undanfarna áratugi og horfi á fíknivarnir sem heilbrigðis- og félagsmál.

Með því megi lina þjáningar þúsunda karla, kvenna og barna og draga úr glæpum sem spretta af ólöglegri sölu og neyslu fíkniefna.

Kannabisvindlingur.
Kannabisvindlingur. AFP
Gríðarelgir fjármunir fara í að berjast gegn fíkniefnaneyslu í stað …
Gríðarelgir fjármunir fara í að berjast gegn fíkniefnaneyslu í stað þess að skattleggja neysluna og færa undir heilbrigðismál. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert