Fyrsta áfanga hreinsunaraðgerða í Kolgrafafirði er nú að mestu lokið og framhald aðgerða verður endurmetið í ljósi aðstæðna. Búið er grafa allt að 15.000 tonn af síldarúrgangi í fjörunni fyrir neðan bæinn Eiði og fara með um 1.000 tonn af grút til urðunar í Fíflholtum.
Hreinsunaraðgerðirnar í Kolgrafafirði eru þær umfangsmestu sem gripið hefur verið til í því skyni að sporna við náttúrulegri mengun á Íslandi, enda er síldardauðinn í firðinum að því að best er vitað án fordæma á Íslandi að magni til. Alls er talið að yfir 50.000 tonn af síld hafi drepist í tveimur viðburðum, um miðjan desember og 1. febrúar.
Í tilkynningu á vefsíðu Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins segir að mikill munur sé á fjörunni við Eiði eftir þetta hreinsunarátak. „Sýnileg síld er nú hverfandi og umfang grútar hefur minnkað töluvert. Þá er gert ráð fyrir að átakið dragi úr lyktarmengun þegar fram líða stundir. Hins vegar er ljóst að verulegt magn grútar er enn í fjörum og úti á firðinum og er nauðsynlegt að fylgjast vel með afdrifum hans í framhaldinu.“
Grúturinn hefur blandast í möl og jarðveg í fjörunni og hafa hlýindi undanfarna daga flýtt fyrir því ferli. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að endurmeta hreinsunaraðgerðir. Umhverfisstofnun metur aðstæður þannig að ekki stafi bráðahætta af grútnum í fjörunni nú, en að leita þurfi leiða til að fjarlægja hann eftir því sem færi og aðstæður leyfa.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun munu nú næstu daga meta árangurinn af aðgerðum til þessa og skoða þörf og leiðir varðandi næstu skref í hreinsun, í samvinnu við sveitarfélagið, landeigendur og fleiri. Áfram verður fylgst með mengun, ástandi fugla, eðlisþáttum sjávar í firðinum og fleiri atriðum. Ástandið kallar á stöðugt endurmat m.t.t. veðurs, sjávarfalla og hraða niðurbrots á dauðri síld og grút.
Ríkisstjórnin hefur lagt til fé til eftirlits og hreinsunarstarfa og mun áfram liðsinna við verkefnið í samráði við fagstofnanir, ábúendur, Grundarfjarðarbæ og aðra heimamenn.