Alþjóðlegi hrósdagurinn verður haldinn hátíðlegur 1. mars næstkomandi. Hrósdagurinn var fyrst haldinn í Hollandi fyrir tíu árum, en breiddist fljótt út og er dagurinn nú haldinn hátíðlegur víða um heim.
Á vefsíðu alþjóðlega hrósdagsins segir að aðstandendur hans vilji að dagurinn verði „jákvæðasti dagur heimsins“. Bent er á að engin markaðsöfl tengist deginum eins og verða vilji með suma aðra daga eins og valentínusardaginn, mæðra- og feðradaginn. Allir geti því tekið þátt og verið sé að höfða til einnar af grunnþörfum mannsins; þarfarinnar fyrir viðurkenningu.
„Nýtum tækifærið og hrósum makanum, börnum okkar, foreldrum, samstarfsfélögum, systkinum, frænkum og frændum og öllum sem við þekkjum. Eitt hrós á dag kemur hamingjunni í lag,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum hrósdagsins á Íslandi.
Facebook-síða alþjóðlega hrósdagsins á Íslandi.