Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um stöðu uppbyggingu hjúkrunarrýma það vera mannréttindi eldra fólks að vera ekki þvinguð til að búa í sambýli með öðru ókunnugu fólki. Sagði hann að stærsta mannréttindamálið í þessum málaflokki í dag væri að útrýma margbýli á hjúkrunarheimilum.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta verkefni sem blasti nú við þingmönnum vera víðtækt og stórt. Sagðist hún huga þyrfti að því alvöru að flytja málaflokk aldraðra heim í hérað.
Að sögn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, hefur þrátt fyrir fjárskort hins opinbera verið lagður mikill metnaður í það í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að eyða tvíbýlum og margbýlum á hjúkrunarheimilum.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni um málið að hún gæti ekki endilega sagt að þetta sé sá málaflokkur sem hún hafi haft mestan áhuga á en þetta væri hinsvegar málaflokkur þar sem mun meira mætti gera. Tók hún undir þau orð að það væru sjálfsögð mannréttindi fyrir aldrað fólk að fá að búa í einbýli. Þá lagði Eygló áherslu á að þegar að þingmenn væru að ræða að stuðla að auka þjónustu fyrir aldraða í einbýli þá mætti þeir hinsvegar passa sig á að draga ekki úr þjónustu við þá sem búa á hjúkrunarheimilum.