„Netklámskjöldur Íslands mun takast á við hart ofbeldi“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans, Halla Gunnarsdóttir.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans, Halla Gunnarsdóttir. mbl.is/Skapti

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, skrifar grein í breska blaðið The Guardian í dag undir fyrirsögninni „Netklámskjöldur Íslands mun takast á við hart ofbeldi“

Þar segir hún að verði ekki tekið á málinu einhvers staðar á bilinu milli fulls frelsis og ritskoðunar muni úr grasi vaxa kynslóð með brenglaða mynd af kynhneigð. Engar líkur væru á því nú til dags að barn næði fullræðisaldri án þess að hafa séð klám.

Í greininni segir hún nýlegt framtak Ögmundar að takast á við dreifingu kláms á netinu hafa hlotið mikla athygli fjölmiðla um heim allan. Margir hafi lýst áliti sínu á því, sumir mælt því bót, aðrir afskrifað það sem vel meinandi framtak sem byggðist á misskilningi og loks væru þeir sem héldu því fram að um tilraun væri til ritskoðunar netsins á Íslandi.

Halla segir að framtak Ögmundar sé meðal ávaxta af víðtæku samráði lögreglu, sérfræðinga í barnaverndarmálum, lögmanna og vísindamanna á háskólastigi, fólks sem fjalli um kynferðislegt ofbeldi. Hún segir að þrjú ráðuneyti hafi hvatt sérfræðinga til að ræða og greina samfélagsleg áhrif ofbeldisfulls kláms og taka þátt í víðtækri og heildstæðri stefnu í því efni. Verið sé að hrinda hugmyndum í framkvæmd sem út úr þessu samráði hafi komið.

Þar á meðal sé aukin áhersla á forvarnir gegn ofbeldi, endurskoðun kynfræðslu í skólum og umfangsmikil stefna í kynheilbrigðismálum. Hugmyndir sem snúa að lagabreytingum hafi hins vegar hlotið mesta athygli. Í fyrsta lagi frumvarp um að þrengja skilgreiningu kláms til að greina milli kynlífs annars vegar og ofbeldis hins vegar. Þar væri norskur refsiréttur hafður til hliðsjónar. Í öðru lagi væri nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins að skoða hvernig framfylgja megi lögunum. Lykilspurningin sneri að því hvort unnt væri að reisa skorður við dreifingu ofbeldisfulls og niðurlægjandi kláms á Íslandi. Snerist það um bæði tæknilegar útfærslur og lagalegar.

Halla segir að gagnrýnendur þessa segi aðgerðirnar sjálfkrafa hafa í för með sér ritskoðun og ólögmæta takmörkun á tjáningarfrelsi. Segir hún að hafa verði í huga, að athafna- og tjáningarfrelsi manna séu ýmsar skorður settar, án þess að það sé túlkað sem brot á mannréttindum. Mikilvægt sé að ræða málin ofsalaust og grafa sér ekki skotgrafir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka