Áætlað er að framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala kosti um 61.500 milljónir króna og um 73.500 milljónir ef tækjakaupum er bætt við.
Við það bætist fjármagnskostnaður upp á um 20.000 milljónir sem eykur heildarkostnaðinn í um 85.000 milljónir króna, að frádregnum tekjum sem aflað verður með sölu eigna. Á móti kemur að færa má 15.000 milljónir til tekna hjá ríkissjóði vegna vsk. af verkefninu.
Þetta kemur fram í greiningu á umfangi framkvæmdarinnar í fylgiskjali með frumvarpi um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, en ítarlega er fjallað um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Er skjalið unnið af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.