Vilja samning fyrir páska

Sjúkrahúsið á Akureyri
Sjúkrahúsið á Akureyri mbl.is/Skapti

Hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri gera kröfu um stofnanasamning sem er sambærilegur þeim sem gerður var við hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. Á fundi hjúkrunarfræðinganna í dag komu fram óskir almennra félagsmanna um að samningagerð yrði lokið fyrir páska.

„Við gerum kröfu um sambærilegan stofnanasamning og hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum fengu, að við fáum sambærilegar hækkanir. Á fundinum kom fram ósk um að samningagerð verði lokið fyrir páska,“ segir Þóra Ester Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en hún á jafnframt sæti í stofnanasamninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Á fundinum í dag voru kynntar kröfur um nýjan stofnanasamning sem samninganefnd lagði fyrir stjórnendur sjúkrahússins.

Samningafundur í næstu viku

Þóra Ester segir að samningar hjúkrunarfræðinganna á Akureyri og á Landspítalanum séu ekki þeir sömu og því sé ekki hægt að fara fram á nákvæmlega sama samninginn. „Við erum að tala um sambærilegar hækkanir í prósentum talið eða að sambærilegur peningur verði lagður í okkar samning og þennan fyrir sunnan.“

Hún segist hafa fundið fyrir einhug á fundinum og að fundarmenn hefðu tekið vel í þær tillögur samninganefndarinnar sem þar voru lagðar fram.

„Núna er vinna í gangi við að skoða málin og við reiknum með formlegum samningafundi með stjórnendum sjúkrahússins fljótlega í næstu viku.“

Um 160 hjúkrunarfræðingar í 120 stöðugildum starfa við Sjúkrahúsið á Akureyri, að sögn Þóru Esterar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert