Á geðlyfjum árum saman

Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja.
Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja. Þorkell Þorkelsson

Eng­ar viðhlít­andi skýr­ing­ar hafa feng­ist á því hvers vegna Íslend­ing­ar eiga heims­met í notk­un geðlyfja. Eng­in ástæða er til að ætla að Íslend­ing­ar séu veik­ari á geði en fólk af öðru þjóðerni. Þúsund­ir lands­manna eru á geðlyfj­um árum sam­an, án þess að hafa farið í sam­talsmeðferð, því að hún er ekki greidd niður af al­manna­trygg­ing­um.

Þetta er um­fjöll­un­ar­efni fjöl­miðlamanns­ins Sölva Tryggva­son­ar í pistli hans, sem birt­ist á bloggsíðu hans í dag und­ir fyr­ir­sögn­inni: Heims­met í sam­tals­leysi

„Trygg­inga­stofn­un niður­greiðir ekki sál­fræðimeðferð á Íslandi, en tím­ar hjá geðlækn­um eru niður­greidd­ir. Meðal­tími hjá sál­fræðingi kost­ar ein­hvers staðar á bil­inu 8-12 þúsund krón­ur. Fyr­ir þá sem eru komn­ir með af­slátt­ar­kort kost­ar tími hjá geðlækni að minnsta kosti tvö­falt minna að jafnaði, þar sem hið op­in­bera kem­ur að því að niður­greiða þá þjón­ustu. Þessi mikli mun­ur á kostnaði ger­ir það að verk­um að flest­ir Íslend­ing­ar velja geðlækna fram yfir sál­fræðinga ef þeir eiga í geðræn­um vanda,“ skrif­ar Sölvi.

Hann seg­ir að stór hluti geðlækna hér á landi stundi ekki sam­talsmeðferð, held­ur gefi þeir sjúk­ling­um ein­göngu lyf. Hann hafi fengið þess­ar upp­lýs­ing­ar eft­ir að hafa rætt við tugi starfs­manna í geðheil­brigðis­geir­an­um og fjölda skjól­stæðinga geðlækna.

Geðheilsa á að vera hluti af heil­brigðis­kerf­inu

„Að sjálf­sögðu er ekki hægt að al­hæfa í þess­um efn­um og á Íslandi eru líka geðlækn­ar sem eru mjög fær­ir í sam­talsmeðferð og stunda hana af alúð. En þeir eru því miður minni­hlut­inn. Ég leyfi mér að full­yrða það miðað við þær upp­lýs­ing­ar sem ég hef fengið yfir margra mánaða tíma­bil,“ skrif­ar Sölvi.

„Geðheilsa á að vera hluti af heil­brigðis­kerf­inu og er það víðast hvar í lönd­un­um í kring­um okk­ur. Þeir pen­ing­ar sem fara í að niður­greiða sam­talsmeðferðir ættu að skila sér marg­falt til baka, enda er var­an­leg ör­orka vegna geðsjúk­dóma á hraðri upp­leið á Íslandi og kem­ur til með að sliga kerfið ef fram held­ur sem horf­ir.“

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður.
Sölvi Tryggva­son fjöl­miðlamaður.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert